Klæða álversbygginguna áli
Verktakar hófu nýlega uppsetningu álklæðningar utan á stálgrind fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík. Þetta er þó ekki til marks um að meiri kraftur hafi verið settur í byggingu álversins, að sögn Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, í Fréttablaðinu í gær.
„Við hægðum verulega á framkvæmdum við álverið eftir hrun og síðan þá höfum við keyrt þetta á lægsta hraða. Það hefur ekki breyst en uppsetning klæðningarinnar er ef til vill meira áberandi en önnur verkefni því að þetta er ofanjarðar, en hún er nauðsynleg til að vernda burðarvirkið, sem er úr stáli, fyrir veðri og vindum,“ segir Ragnar í viðtali við Fréttablaðið.
Varðandi framgang álversins segir Ragnar að viðræður hafi staðið yfir við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um orkusölu, á grundvelli fyrirliggjandi samninga. Eins og fram hefur komið féll gerðardómur undir lok síðasta árs þar sem orkusölusamningarnir milli Norðuráls og HS Orku voru staðfestir, en fyrirtækin eru að vinna að lausn á grundvelli þeirrar niðurstöðu og segir Ragnar að ágætur gangur hafi verið í þeim viðræðum að undanförnu.
„Það liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða um alla þætti á þessari stundu en vonandi tekst að loka því sem eftir er á næstunni,“ segir Ragnar, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig nánar um hvenær Norðurál vonaðist til þess að færi að draga til tíðinda í málinu.
Álversbyggingin er að taka á sig mynd, enda stórir veggfletir nú að verða klæddir grárri álglæðningu.