Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kjartan vill selja bankamálverkin
Þriðjudagur 10. mars 2009 kl. 14:51

Kjartan vill selja bankamálverkin



Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sendi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra  áskorun í dag um að selja öll málverk bankanna.
Kjartan segir að á þessum þrengingatímum þurfi að leita allra skynsamlegra leiða til að afla fjármagns svo ríkisvaldið geti komið til bjargar fólki og fyrirtækjum í landinu.


Í því augnamiði skora ég á þig að beita þér í því að láta selja öll þau um það bil 4.000 listaverk sem voru í eigu föllnu bankanna en eru nú í eigu ríkisins; fólksins í landinu. Þjóðin þarf á þeim fjármunum að halda sem falin eru í þessum listaverkum. Hugsanlega mætti selja þessi verk á opnum uppboðum, sem haldin yrðu með reglulegu millibili næstu misserin, eða með öðrum hætti með það að markmiði að hámarka söluandvirði verkanna.

Við eftirgrennslan mína hef ég komist að því að líklega er ekkert þessa verka undir einni milljón króna að verðmæti og mörg sem verðmetin hafa verið á marga tugi milljóna króna. Lauslega áætlað sýnist mér að með þessum hætti geti þjóðarbúið fengið fjóra til átta milljarða króna og það eru miklir fjármunir þegar litlu er til að dreifa.

Það sem skiptir svo ekki minna máli er að þarna er ekki um að ræða fjármuni sem færðir eru frá einni stofnun til annarrar eða aflað með niðurskurði á þjónustu hins opinbera eða lækkun launa. Þetta eru vannýttir fjármunir sem liggja að mestu í geymslum og eru þar þjóðinni til lítils yndisauka. Við höfum ekki efni á öðru en nýta þessa fjármuni eins og málum er nú háttað hjá íslensku þjóðinni. Eðlileg forgangsröðun, í þeirri erfiðu stöðu sem við nú erum, hlýtur að miðast að því að halda bönkunum opnum, og að þeir geti veitt almenningi og fyrirtækjum eðlilega þjónustu, frekar en bankarnir safni málverkum á veggi og í geymslur, segir í áskorun Kjartans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024