„Kjartan Már klárlega ekki kona“
- fyrsti bæjarstjórnarfundur eftir sumarfrí eins og atburðarás við Bárðarbungu
Breytingar á pólitísku landslagi í Reykjanesbæ hafa greinilega leitt til þess að spenna hefur hlaðist upp á meðal bæjarfulltrúa í sumarfríi bæjarstjórnar. Ólíkt því sem hefur verið að gerast við Bárðarbungu, þá var spennan í Reykjanesbæ leyst úr læðingi á þriðjudagskvöld. Kvikan kom upp á yfirborðið og ýmislegt var látið flakka. Það hreinlega gaus fyrirsögnum. „Stríðið er hafið“, „Böðvar fer hamförum“, „Kjartan Már er klárlega ekki kona“, „hróplegt ósamræmi“, „Óþolandi lýðræði í Reykjanesbæ“ og jafnvel „Formaður bæjarráðs gerir afglöp,“ eru fyrirsagnaefni sem þeyttust í loftið á fundinum.
Fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudagskvöld var sá fyrsti sem haldinn er eftir sumarleyfi bæjarstjórnar en bæjarráð hefur farið með vald bæjarstjórnar í fríinu. Frá því bæjarstjórn kom síðast saman fyrir sumarleyfi þá hafa nýir valdhafar í Reykjanesbæ ráðið nýjan bæjarstjóra. Nýráðinn bæjarstjóri er þó ekki kominn til starfa og var því autt sæti við hringborð bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudagskvöldið, því settur bæjarstjóri var í hlutverki ritara á fundinum.
„Einstaklingur með skýra pólitíska sýn“
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, ætlar greinilega að láta til sín taka í minnihlutanum. Hann byrjaði þó fund bæjarstjórnar á því að hrósa meirihlutanum fyrir val á bæjarstjóra og að þar hafi verið ráðinn „einstaklingur með skýra pólitíska sýn“. „Ég lýsti því skýrt hér á bæjarstjórnarfundi í lok júní að ég teldi að bæjarstjóri í Reykjanesbæ þyrfti fyrst og fremst að hafa skýra pólitíska sýn til að fylgja eftir þeim verkefnum sem honum eru falin af hálfu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjóri hefur svo sérfræðinga, hvern á sínu sviði, til að vinna að hinum faglegu þáttum. Það er sú niðurstaða sem orðið hefur við val á nýjum bæjarstjóra að þar er auðvitað einstaklingur með skýra pólitíska sýn,“ sagði Böðvar og gagnrýndi ráðningarferli meirihlutans sem hann sagði pólitískt og klárlega ekki gagnsætt. Nefndi hann m.a. að umsóknir um starf bæjarstjóra hafi ekki verið lagðar fram í bæjarráði eins og venja er með þau störf sem bæjarráð ræður í.
Böðvar sagði að ráðningarferlið hafi verið fyrst og fremst pólitískt og hafi ekki verið faglegt nema að litlu leyti. Það hafi að mestu leyti verið unnið af oddvitum þeirra flokka sem nú skipa meirihluta í Reykjanesbæ. „Og það var klárlega ekki gagnsætt. Þetta er þó það sem meirihlutinn hafði lofað í upphafi kjörtímabils í ítarlegum málefnasamningi flokkanna,“ sagði Böðvar og bætti síðar við: „Ráðning Kjartans Más Kjartanssonar er að sjálfsögðu í hróplegu ósamræmi við það sem fulltrúar meirihlutaflokkanna höfðu sagt sínum kjósendum og bæjarbúum fyrir kosningar. Sá einstaklingur átti að vera ópólitískur, hann átti að vera sérfræðingur í endurskipulagningu skulda og gott væri að minsta kosti að hann væri kona. [ … ] Kjartan Már Kjartansson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og bæjarráðsmaður í Reykjanesbæ og oddviti framsóknarmanna er að sjálfsögðu ekki ópólitískur frekar en nokkur af okkur sem sitjum við þetta borð. Hann hefur góða rekstrarreynslu en hann er enginn sérfræðingur í endurskipulagninu skulda og hann er klárlega ekki kona. Svo mikið er víst“. Böðvar sagði að þeir flokkar sem nú skipa meirihlutann verði að svara þessu fyrir bæjarbúum. Böðvar sagðist þó vænta mikils af Kjartani Má í stöðu bæjarstjóra í Reykjanesbæ og hlakka til samstarfsins.
Það hefur lítið breyst
„Það eru rúm fjögur ár síðan ég stóð hérna síðast á þessum stað. Það er gaman að vera kominn til baka. Ég heyri það að það hefur lítið breyst. Menn eru greinilega ánægðir með að maður skuli vera kominn til baka, ég heyri það og menn hafa legið yfir viðfangsefnunum í allt sumar og tilbúnir að takast á við þau verkefni sem bíða okkar og það er gott. Það er ýmislegt sem þarf að gera og það er gott að hafa hér einstaklinga sem eru tilbúnir að minna okkur á þegar við erum að gera rangt, þegar við erum að brjóta lög. Það gæti líka þurft að koma til að ég þyrfti að minna félaga minn Böðvar á að sveitarstjórnarlög hafa verið brotin af ýmsu tilefni hér í gegnum tíðina vegna ýmissa ákvarðana sem hafa verið teknar hér við stórnvölinn undafarin ár,“ sagði Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi Beinnar leiðar. Hann sagði jafnframt að staðið hefði verið að ráðningu bæjarstjóra eins faglega og hægt var. Lýðræðislega hafi verið staðið að ráðningunni „en ekki einn ríkisflokkur“ staðið á bak við hana eins og þegar Árni Sigfússon og áður Ellert Eiríksson urðu bæjarstjórar Reykjanesbæjar. Guðbrandur vísaði því allri umræðu um ófaglega ráðningu bæjarstjóra til föðurhúsanna.
Bæjarstjóri sléttur að framan
„Menn eru að velta því fyrir sér hvernig þessi bæjarstjóri eigi að vera í laginu, hvort hann eigi að vera sléttur að framan í efriparti eða neðriparti,“ sagði Guðbrandur og vitnaði í framhaldi til þess að hann hafi sagt í viðtali að hann hvatti konur til að sækja um starf bæjarstjóra en hann hafi einnig hvatt heimamenn sem væru til þess bærir að geta sinnt þessu starfi til að sækja um. „Ég sagði líka í þessu viðtali að við ráðum ekki konu bara af því að hún er kona. Hún verður að vera sú sem er metin hæfust. Það voru konur sem sóttu um en þær voru bara ekki metnar hæfastar,“ segir Guðbrandur. Ferlið hafi endað þannig að Hagvangur hafi að lokum valið tvo einstaklinga hæfasta. Þeir voru báðir heimamenn en hvorugur þeirra var kona.
„Við ætluðum að sjálfsögðu ekki að ráða skoðanalausan bæjarstjóra. Fyrir mér eru skoðanir pólitík, það liggur alveg í hlutarins eðli. Fólk sem hefur skoðanir á málum er pólitískt fólk. Þannig að við ætluðum að sjálfsögðu að ráða pólitískan einstakling, manneskju sem hefði skoðanir á samfélaginu sínu, en við ætluðum ekki að hafa það þannig að ég, eða Friðjón eða Gunnar yrðum bæjarstjórar“. Guðbrandur sagðist fagna því að þessu faglega ferli væri lokið og að við værum komin með mjög hæfan einstakling sem ætlar að leggjast á sveif með okkur og taka á þeim mjög erfiðu málum sem framundan eru. Þau eru ærin, sagði Guðbrandur á fundinum.
„Það er ljóst að stríðið er hafið. Böðvar fer hamförum og byrjar á jákvæðum nótum og þakkar okkur og fagnar en setur svo á sig stríðshanskana,“ sagði Friðjón Einarsson bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra þegar hann kom í pontu á bæjarstjórnarfundinum. Friðjón velti síðan upp þeirri spurningu hvort fyrrum stjórnmálamenn eigi aldrei neina möguleika. Kjartan Már, verðandi bæjarstjóri, hafi hætt í stjórnmálum fyrir fjórum árum en sé litaður í grænum lit af Sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ.
„Óþolandi lýðræði í Reykjanesbæ“
Kristinn Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokks, kom í pontu og fagnaði ráðningu Kjartans Más Kjartanssonar í embætti bæjarstjóra. Hann sá hins vegar ástæðu til að gagnrýna bæjaryfirvöld þegar kemur að nefndaskipan og talaði um „óþolandi lýðræði í Reykjanesbæ“. Kristinn sagði það það gjörsamlega óþolandi að í Reykjanesbæ sé annað lýðræði en t.a.m. í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og vísar þar til þess að framsóknarmenn hafi ekki fengið áheyrnarfulltrúa í fastanefndum bæjarins, þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi boðist til að hafa fulltrúa sína þar launalaust fyrir bæjarfélagið. Kristinn sagði formann bæjarráðs hafa gert afglöp í málinu þegar hann afgreiddi tvær tillögur í málinu sem eina. Önnur tillagan hafi verið um áheyrnarfulltrúa en hin um kjör þeirra. Kristinn sagði að á meðan ekki verði breyting á muni hann tala um óþolandi lýðræði í Reykjanesbæ hvar sem kostur gæfist á því.
Friðjón Einarsson sagði framkomu Kristins í þessu máli ekki hafa verið til sóma „og orðháttur og hótanir bæði til mín og framkoma í kringum allt þetta mál finnst mér ekki sómi bæjarfulltrúa,“ sagði Friðjón.
Kristinn kom upp og baðst afsökunar á að ef hann hafi notað einhver illa valin orð á einhverjum fundi, þá biðjist hann afsökunar á því „en mér var misboðið á þeim fundi, gjörsamlega“. Kristinn sagði enn fremur „ég er gjörsamlega yfir mig hneykslaður á ráðstöfun og afglöpum formanns bæjarráðs í meðferð þessara tillagna minna. Ég stend alveg við það“.
Nánar verður fjallað um bæjarstjórnarfundinn á vf.is.