Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kjararáð greiddi kvenkyns forstjóra Fríhafnarinnar lægri laun en karlkyns forveranum
Föstudagur 3. febrúar 2012 kl. 13:56

Kjararáð greiddi kvenkyns forstjóra Fríhafnarinnar lægri laun en karlkyns forveranum

Þegar Ásta Dís Óladóttir tók við starfi framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar af Hlyni Sigurðarsyni ákvað kjararáð að lækka launin um 85.986 krónur á mánuði. Hún sendi beiðni um úrskurð til kærunefndar jafnréttismála sem óskaði eftir skýringum ráðsins. Daginn sem þær áttu að berast ákvað kjararáð að greiða henni sömu laun og Hlynur hafði fengið og endurgreiða Ástu mismuninn aftur í tímann. Fréttatíminn greinir svo frá. Eygló Harðardóttir, þingkona í Suðurkjördæmi vakti athygli á málinu í vikunni og segir að grunnlaun kvenna sem stýra fyrirtækjum og stofnunum sem eru í meirihlutaeigu ríkisins séu að meðaltali með um 654.092 kr. fyrir dagvinnu en 698.355 hjá körlum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Í ráðningarferlinu var mér sagt að ákvörðun launa væri í höndum kjararáðs. Ég væri hins vegar með meiri menntun en forveri minn í starfi og myndi því væntanlega frekar hækka en lækka í launum miðað við hans. Ég sá hvað kjararáð hafði úrskurðað honum og ákvað því að taka starfinu. Þá lækkaði kjararáð heildarlaunin,“ og sér enga skýringu á því. „Ég, ásamt fleiri konum í minni stöðu höfum velt því fyrir okkur þegar við skoðum úrskurði kjararáðs hvers vegna konur fá nær undantekningalaust færri yfirvinnutíma en karlmenn, “ segir Ásta Dís í viðtali við Fréttatíman

Hún harmar að kærunefndin hafi látið málið niður falla í stað þess að úrskurða um hvort jafnréttislög hafi verið brotin. „Þeir hefðu mátt taka afstöðu, ekki vísa málinu frá.“

Magnús Guðmundsson, formaður Félags forstöðumanna ríkisstofnana, segir félagið hafa áhyggjur af stöðu kvenna innan félagsins. „Við höfum rætt þetta en okkur vantar tölfræðina. Það er erfitt að átta sig á því hvers vegna þær eru launalægri. Það vantar alla mælikvarða til þess. Þegar matið er handahófskennt er hætta á ógegnsæju keri sem við viljum sporna gegn.“

Þegar kjararáð úrskurðaði um laun Hlyns fékk hann 25 einingar, sem greiddar eru fyrir yfirvinnu. Rökin voru þau að gæta yrði meðalhófssjónarmiða til þess að laun hans lækkuðu ekki óhóflega frá því sem var áður en starfið var fært undir kjararáð árið 2010. Samkvæmt skoðun Fréttatímans eru dæmi um að laun annarra forstöðumanna, af þeim fjörutíu sem færðir voru undir ráðið, hafi lækkað hlutfallslega meira en hans.

Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, skoðar launamál svipað máli kvennanna vegna úrskurða kjararáðs. Hann vildi ekki þó ekki tjá sig. „Það er á viðkvæmu stigi.“

Sjá grein Fréttatímans.