Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kjaftfylltu bátinn af vænum þorski við Garðskaga
Þriðjudagur 27. mars 2007 kl. 22:37

Kjaftfylltu bátinn af vænum þorski við Garðskaga

Bræðurnir á Gunnari Hámundarsyni GK frá Garði hafa verið í þægilegu fiskeríi síðustu daga. Þeir hafa verið að koma með örfá tonn á land um miðjan dag og gert sjálfir að aflanum.

Dagurinn í dag varð hins vegar mjög frábrugðinn síðustu dögum því þegar netin voru dregin út af Garðskaga í dag reyndust vera um 30 tonn af vænum þorski í netunum. Það var því ekki komið í landi fyrr en á tíunda tímanum í kvöld og má búast við andvökunótt í aðgerðinni úti í Garði. Báturinn var kjaftfullur af fiski.

Einn af reyndustu skipsstjórum Suðuresja var á bryggjunni í Keflavík í kvöld þegar Gunnar Hámundarson GK kom að landi og sagði hann að ástandið í sjónum nú hafi ekki verið svona gott í ein 30-40 ár.

Gunnar Hámundarson GK er með um 100 tonna kvóta og því hefði veiðiferðin í dag þýtt að um 30% aflaheimilda hafi veiðst á einum degi. Kvótinn er hins vegar löngu búinn og því þarf að leigja kvóta fyrir ævintýri eins og í dag. Þegar ljóst var hvert stefndi í dag var tekið upp og ekki verður róið á morgun.

Mynd: Þorvaldur Þorvaldsson brosir yfir troðfullum báti af fiski. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson.

Fleiri myndir í ljósmyndagallerýi hér á forsíðu vf.is
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024