Kjaftfullir af makríl bíða löndunar
Makrílveiðin í og við Keflavík hefur tekið kipp að undanförnu eftir rólega byrjun. Margir bátar hafa nýtt sér fjörið síðustu daga og má sjá fjölda þeirra við ströndina frá Keflavík og út að Garðskagaflös. Um tuttugu bátar hafa landað markríl síðustu daga og er aflinn kominn í um 1900 tonn frá 38 bátum.
Markríllinn hefur verið skemmtileg „innkoma“ í Keflavík á síðustu árum og hafa margir bæjarbúar mætt með stöngina niður á höfn og veitt þar í samkeppni við bátana. Þá hafa margir ánægju af því að sjá bátana nálægt landi við veiðarnar.
Mikil umferð gangandi vegfarenda er um hafnarsvæðið í Keflavík og hefur nú verið merkt sérstök gönguleið framhjá vinnusvæði við löndun þar sem lyftarar eru stöðugt á ferðinni og hætta getur skapast í atganginum.
VF-myndir: Hilmar Bragi