Kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík heldur starfsleyfinu
-Eignir Íbúðalánasjóðs í Sandgerði og Reykjanesbæ passa ekki inn í félagslega húsnæðiskerfið
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í vikunni kröfu Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands, Landverndar, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtökum Íslands og Ellerts Grétarssonar áhugaljósmyndara um ógildingu starfsleyfis kísilverksmiðju Thorsil í Helguvík. Thorsil ehf. áætlar að reisa kísilverksmiðju í Helguvík á lóð við hliðina á kísilverksmiðju United Silicon. Þar áætlar Thorsil að framleiða 110.000 tonn af kísilmálmi á ári í fjórum ljósbogaofnum.
Thorsil ehf. fékk fyrst starfsleyfi árið 2015 og var það fellt úr gildi af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í október 2016 vegna ágalla á auglýsingu um veitingu þess. Nýtt leyfi frá Umhverfisstofnun var svo gefið út í febrúar síðastliðnum.
Útskurðarnefndin telur að ekki eigi að ógilda starfsleyfið í þetta skipti, en í kærunni var meðal annars sagt að umhverfismati væri ábótavant með tilliti til samvirkra áhrifa verksmiðjunnar, öflunar orku og flutnings hennar á svæðið. Einnig væri leyfið gefið út fyrir helmingi stærri verksmiðju en ívilnanasamningur ríkisins við Thorsil hljóðaði upp á.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að ekki verði talið að í leyfisveitingunni séu þeir form- eða efnisannmarkar sem geti valdið ógildingu. Var kröfu kærenda því hafnað.