Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kísilverksmiðja í Helguvík fær jákvæða dóma Skipulagsstofnunar
Föstudagur 3. október 2008 kl. 09:25

Kísilverksmiðja í Helguvík fær jákvæða dóma Skipulagsstofnunar



Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum um kísilverksmiðju í Helguvík. Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð kísilverksmiðja Icelandic Silicon Corporation í Helguvík, með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Álitið í heild liggur frammi hjá Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, 150 Reykjavík. Álit Skipulagsstofnunar og matsskýrslu Tomahawk Development er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar: www.skipulag.is, segir í tilkynningu frá Skipulagsstofnun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Helstu niðurstöður

Skipulagsstofnun telur að sýnt hafi verið fram á að losun helstu mengunarefna frá kísilverksmiðju í Helguvík verði neðan viðmiðunarmarka íslenskra reglugerða og því sé ekki tilefni til þess að afmarka þynningarsvæði fyrir starfsemina. Skipulagsstofnun telur að saman fari hagur fyrirtækisins og umhverfisins um hreinleika hráefna, sem muni leiða til þess að mengun verði í lágmarki. Engu að síður er það fylgifiskur starfseminnar að losa loftmengandi efni sem nemur hundruðum tonna á ári. Þó svo að styrkur þeirra reiknist ávallt langt neðan viðmiðunarmarka reglugerða, þá telur Skipulagsstofnun áhrif þeirra nokkuð neikvæð.


Skipulagsstofnun telur að sjónræn áhrif kísilverksmiðjunnar verði óveruleg, einkum í ljósi þess að kíslimálmversmiðjan mun standa á neðri hluta iðnaðarsvæðis við Helguvíkurhöfn, sem liggur um 20 metrum lægra en efri hluti svæðisins og sjónræn áhrif verði að mestu staðbundin.


Fram hefur komið að óráðstafað er 1,1 milljón losunarheimilda (tonna), á grundvelli laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda, sem unnt verður að sækja um á næsta ári. Fái kísilverksmiðjan ekki úthlutað af þeim heimildum, þá verður hún að öllum líkindum að afla losunarheimilda erlendis. Skipulagsstofnun bendir á að ekki er ljóst hvaða úthlutunarreglur taka við í byrjun árs 2013. Skipulagsstofnun telur jákvætt að ISC hyggst leita leiða til að hagnýta eða farga koldíxíði en telur mörgum spurningum ósvarað áður en unnt verður að fullyrða um árangur af þeim verkefnum sem talin eru vænlegust til árangurs. Það er því mat Skipulagsstofnunar að kísilverksmiðjan hafi töluverð neikvæð áhrif með losun gróðurhúsalofttegunda. Engu að síður ber að hafa í huga möguleg jákvæð áhrif starfseminnar á losun gróðurhúsalofttegunda, en þau felast í því að fullunnar sólarrafhlöður afla 10-20 sinnum meiri orku en fór til að framleiða þær og því er von til þess að sú orkuöflun komi í stað aðferða sem hafa í för með sér enn meiri losun gróðurhúsalofttegunda.


Skipulagsstofnun telur verulega óvissu ríkja um orkuöflun til kísilverksmiðjunnar. Eins og fram kemur í matsskýrslu kann sú óvissa að ráða stærð fyrsta hluta 1. áfanga sem og tímasetningum framkvæmda við 2. og 3. áfanga verksmiðjunnar. Skipulagsstofnun telur mjög jákvætt og til eftirbreytni að unnið sé að betri orkunýtni með því að taka afsogsloft frá ofnum til raforkuframleiðslu. Skipulagsstofnun telur að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu kísilverksmiðjunnar þar til niðurstaða liggur fyrir um flutning.


Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð kísilverksmiðja Icelandic Silicon Corporation í Helguvík, með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Myndin er frá framkvæmdum í Helguvík en tengist ekki efni fréttarinnar. Vikurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson