Kísilverið í Helguvík gríðarleg lyftistöng fyrir Reykjaneshöfn
Undirbúningur við Kísilverið í Helguvík stendur yfir af fullum krafti og gert er ráð fyrir að innan nokkurra vikna hefjist frekari vinna á lóð kísilversins og byggingar taki að rísa snemma í sumar. Gert er ráð fyrir að hverju sinni verði um 150-300 manns við byggingarstörf á svæðinu þar til rekstur hefst á árinu 2013.
Á íbúafundi með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, sem fram fór í í Höfnum sl. fimmtudag kom fram að Reykjaneshöfn fær um hálfan milljarð í sinn hlut fyrir kísilverslóðina. Um 80 milljónir kr. koma svo í hafnargjöld á ári þegar kísilverksmiðjan byrjar að framleiða og um 50 milljónir króna á ári eru greidd í fasteignagjöld af lóð og byggingum.
„Kísilverksmiðjan sýnir vel þau verðmæti sem eru í lóðum í Helguvík og hvað sú fjárfesting sem við höfðum lagt í getur skilað höfninni góðum arði. Enn frekar sýnir þetta verkefni að það er að draga að sér athygli annarra fjárfesta og fyrirtækja sem sjá samlegðaráhrif af að vera á svæðinu, geta jafnvel nýtt aukaafurðir sem kísilverið framleiðir“ sagði Árni.
„Allt þetta höfðum við reyndar sýnt fram á með tilkomu álvers í Helguvík, og margfalt þetta, en ótrúlegar tafir hafa verið á því máli. Það er stundum eins og ekki megi nefna orðið „álver“ þótt grunnvinnslan í álveri og kísilveri sé um margt mjög lík“ sagði Árni.