Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kísill sem fæðubót
Hanna Ragnheiður Ingadóttir, Burkni Pálsson og Fida Abu Libdeh í húsnæði geoSilica.
Föstudagur 8. mars 2013 kl. 09:37

Kísill sem fæðubót

- geoSilica undirbýr framleiðslu í frumkvöðlasetrinu Eldey

Meðal þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref sem frumkvöðlar í Eldey frumkvöðlasetri á Ásbrú eru Fida Abu Libdeh og Burkni Pálsson en þau stofnuðu á síðasta ári fyrirtækið geoSilica í framhaldi af lokaverkefnum beggja við tæknifræðinám hjá Keili. Fyrirtækið, sem mun sérhæfa sig í vinnslu á kísil sem næringarefnis, fékk í haust styrk frá Tækniþróunarsjóði sem tryggir því rekstur næstu þrjú árin.

Lokaverkefni Burkna fjallaði um aðferðir við hreinsun kísils sem fellur út úr heitum jarðsjó við kólnun, en Fida rannsakaði áhrif kísils sem næringarefnis og m.a. hvernig hann virkar á bakteríur. Þar kom í ljós að kísillinn hefur hemjandi áhrif á bakteríur en áður hafði verið talið að saltið í heitum sjó væri orsakavaldurinn. Þó ekki sé enn vitað hvað það er í kíslinum sem veldur þessari virkni þá er ljóst að hann býr yfir sömu eiginleikum og mörg sótthreinsandi efni. Þegar Fida fór að ræða við Burkna um kísil sem næringar- og fæðubótarefni og hve mikil verðmæti væru í hreinum kísil, komu þau fljótt auga á möguleikana sem felast í vinnslu kísils úr affallsvatni jarðhitavirkjana á svæðinu. Vatnið frá þessum virkjunum rennur nú óhindrað í sjó eða er dælt aftur niður í jörðina án þess að nokkur sé að nýta það. Álitlegasti kosturinn var vatn frá Hellisheiði vegna efnasamsetningar þess. Þau settu sig í samband við Orkuveitu Reykjavíkur sem sýndu verkefninu strax mikinn áhuga þar sem um var að ræða nýtingu á vatni sem þeir þurfa að hafa mikið fyrir að losa sig við. Í kjölfarið fengu þau viljayfirlýsingu frá OR um samstarf og að þau fái að nýta affallsvatn frá Hellisheiðarvirkjun að vild. Til viðbótar fá þau að nýta afgangs varma frá virkjuninni við að forvinna vatnið áður en það er flutt á vinnslustað.

Algjör nýjung
„Þessi aðferð við kísilvinnslu er algjör nýjung og skapar okkur hjá geoSilica mikla sérstöðu, þar sem hvergi annars staðar í heiminum er verið að hreinsa kísil á náttúrulegan hátt." segir Burkni. Venjan hafi hingað til verið að nota ýmis efnasambönd til að vinna kísil úr jarðvegi og bergi. Fida segir að menn séu fyrst núna að átta sig á þessum undraverðu eiginleikum kísils sem fæðubótaefnis á líkamann og ekki síður til útlosunar óæskilegra efna sem hlaðast upp í líkamanum. Einnig er talið að kísill geti komið í veg fyrir ýmis önnur vandamál s.s. beinþynningu og mjög sennilegt að fleiri kostir efnisins komi í ljós fyrr en síðar.

Fyrsti starfsmaðurinn ráðinn
Fyrirtækið hefur síðan í haust leigt aðstöðu hjá Eldey frumkvöðlasetri og þar er nú verið að leggja lokahönd á standsetningu iðnaðarrýmis fyrir starfsemina. Fyrsti starfsmaðurinn hefur verið ráðinn en það er Hanna Ragnheiður Ingadóttir sem mun sinna verkefnastjórn í vöruþróun. Fyrsta vörutegundin, fæðubótarefni úr kísil, er nú á prófunarstigi og eru þau nú þegar með aðra vöru á teikniborðinu en það er steinefnaríkur næringardrykkur. Fida og Burkni segjast finna fyrir miklum meðbyr hjá fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu og eru mjög þakklát fyrir allan stuðning sem þau hafa fengið við fyrstu skrefin. Og þó svo að vatnið sé aðfengið sé stefna geoSilica að hafa starfsemina á Reykjanesi, leita ekki langt yfir skammt og nýta alla þá þjónustu sem svæðið hefur upp á að bjóða. Framundan er standsetning vinnslulínu samhliða vöruþróun og markaðssetningu á netinu þar sem sigtað er á stærstu söluaðilana. Markmiðið er svo að vera komin af stað með framleiðslu á árinu og fyrstu vöruna í sölu á seinni hluta þessa árs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Úr húsnæði geoSilica á Ásbrú.