Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

  • Kísilbræðsla að hefjast í Helguvík
    Kísilver United Silicon í Helguvík. VF-myndir: Hilmar Bragi
  • Kísilbræðsla að hefjast í Helguvík
    Magnús Garðarsson með kyndil sem notaður var til að kveikja upp í ofni kísilversins í síðustu viku.
Föstudagur 21. október 2016 kl. 15:28

Kísilbræðsla að hefjast í Helguvík

— Enginn strompur á kísilverinu

Framleiðsla á kísil er að hefjast í kísilveri United Silicon í Helguvík. Eins og við greindum frá í síðasta blaði var kveikt upp í fyrsta ofni kísilversins á miðvikudag í síðustu viku. Það var gert til að baka fóðringar í ofninum en sú aðgerð átti að taka að lágmarki 60 klukkustundir. Síðustu dagar hafa farið í að prófa allan búnað kísilversins sem nú á að vera tilbúið til framleiðslu.
Víkurfréttir tóku Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóra United Silicon, tali í síðustu viku þegar hann hafði formlega kastað fyrsta logandi kyndlinum í bræðsluofninn og þar með kveikt eld í ofninum sem mun loga næstu áratugi. „Þetta er góður dagur,“ sagði Magnús í samtali við blaðamann.

— Hvernig er þá staðan á verkefninu í dag?

Staðan er sú að verksmiðjan er fullkláruð og við erum núna að prufukeyra framleiðslubúnaðinn og framkvæma svokallað „hot run test“ þar sem kveikt er upp og athugað hvort allar græjur séu í lagi, skynjarar og stýrikerfið tali saman og hafi stjórn á allri verksmiðjunni. Þetta er nokkuð stór áfangi þótt við séum ekki enn byrjuð að nota raforku.

Í gær, fimmtudag, er áætlað að fylla á bræðsluofninn með hráefnum til kísilframleiðslunnar og halda áfram prófunum en allir verkferlar þurfa að virka áður en framleiðsla hefst formlega.

— Það hafa verið nokkur ljón á veginum og þetta hefur tafist lengur en þið gerðuð ráð fyrir.

Já það hafa verið steinar á leiðinni og við erum núna 60 dögum of seinir að setja þetta í gang. En þetta er mjög stórt verkefni og ófyrirséðir hlutir hafa gerst. Meðal annars þá sprakk hjá okkur einn spennir í júlí og það tók tíma að finna annan spenni sem passaði og við fengum að leigja hann. Mjög flott hjá HS veitum að hjálpa okkur með að útvega þennan spenni. Á meðan er verið að búa til nýjan spenni á Ítalíu og það tekur allt saman tíma.

— Ertu búinn að manna fyrirtækið og ertu kominn með starfsfólk til að hefjast handa?

Já, við erum komnir með starfsmenn í flestar stöður. Okkur vantar svona 10 til 12 manns í viðbót en akkúrat núna erum við með 13 manns frá Noregi sem eru hér að hjálpa okkur að starta verksmiðjunni. Þeir fara svo heim um jólin nema fimm sem verða hér fram í febrúar. Svo við reiknum með að þurfa að ráða um það bil 12 Íslendinga í staðinn fyrir þá.

— Hvernig er svo framhaldið? Eruð þið eitthvað farin að hugsa um næstu áfanga?

Já, við hugsum alltaf um næstu áfanga en akkúrat núna fókuserum við á það að koma þessum fyrsta ofni okkar í góðan og stöðugan rekstur og þá förum við að huga að ofni númer tvö. Við erum með rekstrarleyfi og pláss á lóðinni fyrir fjóra ofna allt í allt. En við tökum eitt skref í einu og einbeitum okkur að því.

— Þegar horft er yfir svæðið hjá ykkur sér maður hrúgur af kvarsi, viðarspæni og kolum. Ertu kominn með allt sem þarft til framleiðslunnar og hvernig verður þetta?

Það kemur að meðaltali eitt skip í viku með hráefni fyrir okkur frá Portúgal, Hollandi, Kanada og Póllandi. Við erum með fullar birgðir núna til að geta sett framleiðsluna í gang. Við erum með birgðir fyrir sex vikna framleiðslu og byrjum að nota þær í þessari viku. Þá sjáum við hvenær við þurfum að fá næstu skip sem verður væntanlega í lok nóvember og byrjun desember.

— Fyrir hinn almenna borgara sem veit ekki mikið um svona framleiðslu, hvað er nákvæmlega að gerast í þessum mannvirkjum hér í Helguvík?

Þetta er efnabreyting sem fer fram í ofninum. Kvars er kísiloxíð og við blöndum réttum hlutföllum af kvarsi, kolum og tréflís í ofninn. Þegar það er hitað upp þá á sér stað efnabreyting og kolefnið stelur súrefninu frá kísilnum í kvarsinum. Það gufar upp í gegnum lofthreinsivirkið okkar og svo fáum við hreinan kísil í botninum á ofninum þar sem hann lekur út. Við erum með það sem heitir „continuous tapping“ þar sem kísillinn lekur stöðugt út.

— Þegar maður horfir á þessar byggingar ykkar hér í Helguvík, há og mikil mannvirki, þá sést enginn strompur á þessari verksmiðju?

Nei, það er enginn strompur. Það er bara loftfilter-hús sem er með hreinsibúnaði sem hreinsar reykinn frá verksmiðjunni svo hann mun ekki sjást. Það er ekkert hættulegt í honum annað en brennisteinsoxíð eins og við sáum í eldgosinu í Holuhrauni. Það hefur verið reiknað út og  skráð að það er allt undir viðmiðunarmörkum og mun ekki hafa nein áhrif á samfélagið.

— Fólk mun þá ekki sjá neinn reyk frá þessu húsi?

Nei, það mun það ekki. Og við erum meira að segja með okkar hönnun þannig að það eru ekki neyðarskorsteinar. Verksmiðjan á Grundartanga, sem er reyndar kísiljárnverksmiðja, er byggð með sambærilegum ofnum og er með neyðarskorsteina, þar sem reykurinn getur farið beint út. Okkar verksmiðja er ekki með slíkt, svo við erum alltaf að keyra loftið í gegnum hreinsibúnaðinn.

Magnús Garðarsson segir ástæður þess að ekki séu neyðarskorsteinar á verksmiðjunni þá að hún standi við hliðina á flugvelli og það sé ekki vilji þeirra hjá United Silicon að blása reyknum í mótora flugvéla sem fljúga yfir verksmiðjuna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024