Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kísilannáll
Þriðjudagur 30. janúar 2018 kl. 16:05

Kísilannáll

19. mars 2014
Samið um raforkuflutninga fyrir kísilver í Helguvík

Forstjóri Landsnets undirritaði samkomulag við United Silicon hf. um raforkuflutninga vegna kísilvers í Helguvík. Áætluð aflþörf verksmiðjunnar er 35 megavött (MW). Samkomulag United Silikon við Landsnet miðast við að orkuafhending hefjist í febrúar árið 2016 og að starfsemin verði komin á fullt tveimur mánuðum síðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

9. apríl 2014
Fjárfestingarsamningur GERÐUR við United Silicon

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði fjárfestingarsamning við United Silicon hf. vegna fyrirhugaðs kísilvers félagsins í Helguvík á Reykjanesi. Um er að ræða nýfjárfestingarverkefni sem hljóðar upp á 74 milljónir evra, eða tæplega 12 milljarða íslenskra króna.
Áætluð ársframleiðsla kísilversins er 21.000 tonn af kísli og 7.500 tonn af kísilryki. Gert er ráð fyrir að 60 starfsmenn komi til með að vinna við verksmiðjuna og starfsmenn við byggingu hennar verði allt að 200. Miðað er við að framleiðsla hefjist á árinu 2016 og að fullum afköstum verði náð 2017.

27. ágúst 2014
Fjölmenn skóflustunga tekin að kísilverk-smiðju í Helguvík

Skóflustunga að nýrri kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík á Suðurnesjum var tekin við hátíðlega athöfn. Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, Ragnheiður Elín Árnadóttir, viðskipta- og iðnaðarráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Anna Lóa Ólafsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Doron Sanders, stjórnarformaður United Silicon og Karl Þráinsson frá ÍAV tóku fyrstu skóflustungurnar að verksmiðunni. Athöfnin fór fram á lóð félagsins að Stakksbraut 9 þar sem kísilverksmiðja United Silicon mun rísa.+

10. júlí 2015
Risaofn hífður frá borði í Helguvík

„Það eru stór tímamót að ofninn sé kominn til landsins. Það er búið að vinna í þessu í tæpt ár frá því skrifað var undir samninga. Við hófum svo framkvæmdir á svæðinu í september. Það er búið að teikna og hanna en menn hafa ekki almennilega séð hvernig afraksturinn verður fyrr en núna þegar búnaðurinn kemur,“ segir Helgi Björn, yfirverkfræðingur hjá United Silicon. Stórt skref var stigið í byggingu kísilverksmiðju þegar félagið tók á móti 32 megavatta ofni á mánudag fyrir fyrsta áfanga verksmiðjunnar. Ofninn, sem er frá Tenova Pyromet, mun framleiða um 21.500 tonn af kísli á ári en framleiðsla mun hefjast á vormánuðum á næsta ári. Kísilverið verður 36 metrar á hæð og mun mest sjást í lofthreinsibúnaðinn, sem verður um 18 metrar.

10. september 2015
Framleiðsla hefst í maí á næsta ári

Kísilver United Silicon rís hratt þessa dagana í Helguvík. Fyrsti ofn kísilversins hefur verið settur saman og nú er unnið að því að setja saman stálgrind verksmiðjuhússins. Fyrirtækið er að ráða til sín starfsmenn og munu nokkrir hefja störf á næstu vikum en fleiri um áramót.

10. október 2015
Landsnet ver einum og hálfum milljarði í Helguvík

Landsnet fjárfestir á Suðurnesjum fyrir um einn og hálfan milljarð króna á þessu ári í því að leggja jarðstreng frá Fitjum að Helguvík og í byggingu tengivirkis í Helguvík. Verkefnið sem um ræðir er lagning 132 kV strengs milli Fitja og Helguvíkur en strengurinn ásamt tengivirkinu Stakki í Helguvík, sem Landsnet er líka að láta byggja, eru liðir í því að uppfylla samning Landsnets um flutning raforku til kísilvers United Silicon sem verið er að reisa í Helguvík. Á tengingin að vera tilbúin 1. febrúar 2016.

19. október 2015
Á annað hundrað starfsmenn við byggingu kísilvers United

Á annað hundrað manns starfa nú við framkvæmdir hjá United Silicon kísilverinu í Helguvík.
„Þetta hefur gengið ágætlega, nokkurn veginn samkvæmt áætlun. Við erum kannski örlítið á eftir en ætlum að vinna það upp. Við stefnum að því að hefja hér framleiðslu í maí næsta vor eins og upphafleg plön gerðu ráð fyrir,“ sagði Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi United Silicon fyrirtækisins en það reisir nú kísilver í Helguvík.

31. maí 2016
Fyrsta hráefnið fyrir kísilvinnslu í Helguvík komið

Fyrsti farm­ur­inn af hrá­efni fyr­ir nýtt kís­il­­ver United Silicon í Helgu­vík er kominn til landsins. Um var að ræða tæp­lega sex þúsund tonn af kvars sem er stein­teg­und og meðal grun­nefna sem notuð eru við kís­il­vinnsl­una. Í næsta mánuði munu send­ing­ar af öðrum hrá­efn­um ber­ast og í lok júní er gert ráð fyr­ir að próf­an­ir á kísilverinu hefj­ist.

15. júlí 2016
ÍAV og United Silicon deila um framkvæmdir í Helguvík

Íslenskir Aðalverktakar hættu framkvæmdum við kísilver United Silicon í Helguvík á hádegi í gær. Að sögn Sigurðar R. Ragnarssonar, forstjóra ÍAV, var það vegna ógreiddra skulda sem slaga hátt í milljarð. Ekki er öll upphæðin þó gjaldfallin. Hins vegar segir Magnús Garðarsson, framkvæmdastjóri United Silicon, að fyrirtækið hafi rift samningi við ÍAV vegna ýmissa vanefnda, til að mynda við skil á verkinu sem hann segir hafa tafist. Þá hafi ÍAV innheimt hærri upphæð en samið var um. „Við fengum þau skilaboð að United Silicon ætli ekki að greiða neitt af þessari upphæð og því var þessi ákvörðun tekin,“ segir Sigurður.

29. júlí 2016
Eina stóriðja landsins án sérkjarasamninga

Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir það mikil vonbrigði að United Silicon og Samtök atvinnulífsins muni ekki ætla að gera sérkjarasamninga við starfsmenn kísilverksmiðjunnar sem er að rísa í Helguvík. Fyrir vikið verði verksmiðjan eina stóriðjan á Íslandi sem ekki gerir slíka samninga við starfsfólk sitt. Hann gerir ráð fyrir því að erfitt verði að manna verksmiðjuna nema með erlendu vinnuafli.

11. október 2016
Byrjað að kynda upp ofninn í kísilverinu í Helguvík

Tímamót urðu í starfsemi kísilvers United Silicon í Helguvík skömmu fyrir hádegi þegar eldur var kveiktur í fyrsta ofni kísilversins. Eldurinn þarf að loga í 60 klukkustundir áður en bræðsla á kísli hefst í kísilverinu.
Eldurinn sem kveiktur var í morgun er til að herða kísilofninn en í eldinum verður brennt timbur sem safnast hefur upp á framkvæmdatímanum í Helugvík.
Notaðir voru kyndlar og grillvökvi til að kveikja upp í ofninum en þegar framleiðsla fer í gang á næstu dögum þá verður eldsneytið annað og m.a. hleypt rafmagni á ofninn.

13. nóvember 2016
Kísilmálmverksmiðja United Silicon komin í gang

Kísilmálmframleiðsla hjá United Silicon í Helguvík var gangsett í dag. Þetta er fyrsta kísilmálmverksmiðjan á Íslandi. Iðnaðar- og viðskiptaáðherra, Ragnheiður Elín Árnasdóttir, setti ljósbogaofn verksmiðjunnar, sem framleiðir kísilinn, af stað og var það vel við hæfi þar sem hún tók fyrstu skóflustunguna að verksmiðjunni í ágúst 2014.

17. nóvember 2016
Súr brunalykt frá kísilveri pirrar bæjarbúa í Reykjanesbæ

Samfélagsmiðlar í Reykjanesbæ loga vegna lyktar sem berst frá kísilveri United Silicon. Í norðanáttinni berst megn reykjarlykt frá kísilbræðslunni. Lyktin er súr viðarbrunalykt en tréflís er eitt af þeim hráefnum sem notað er í kísilbræðsluna ásamt kolum.
„Svakalega er vond lykt úti,“ skrifar bæjarbúi í Reykjanesbæ inn á samfélagsmiðilinn Reykjanesbær - gerum góðan bæ betri.
Í svari við færsluna segir annar bæjarbúi: „Er hægt að bjóða okkur upp á þetta? Vaknaði með svaka hausverk og ógeðslega lykt í loftinu! Held að þessi verksmiðja sé stórhættuleg heilsu allra hér í Reykjanesbæ“.

17. nóvember 2016
Óhreinsaður reykur úr kísilveri ástæða lyktar

Súra brunalykt frá kísilveri United Silicon í Helguvík hefur lagt yfir Reykjanesbæ í gær og í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun fékk stofnunin þær skýringar frá tengiliðum fyrirtækisins að blásarar fyrir afsog á reyk úr ofnum og ofnhúsi hafi verið stilltir á lágan styrk í gærmorgun þar sem verið var að vinna í síuhúsi fyrir reykhreinsivirkin. Fyrir mistök var styrkur blásara ekki stilltur upp aftur fyrr en í gærkvöld. Af þessum sökum fór reykur að hluta óhreinsaður út um dyr verksmiðjunnar í gær, í stað þess að fara í gegnum reykhreinsivirkin.

25. nóvember 2016
Bæjarráð lýsir yfir áhyggjum af reyk- og lyktarmengun frá kísilveri

Bæjarráð Reykjanesbæjar lýsti á fundi sínum í gær yfir áhyggjum af lyktar- og reykmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík en líkt og Víkurfréttir hafa greint frá fundu íbúar fyrir henni eftir að verksmiðjan hóf framleiðslu um síðustu helgi. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur falið Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, að óska eftir skýrslu frá Umhverfisstofnun og að fulltrúar hennar mæti á næsta fund bæjarráðs þann 1. desember næstkomandi.

28. nóvember 2016
Starfsmenn United Silicon kvarta ekki undan óþægindum

„United Silicon telur rétt að það komi fram að starfsmenn fyrirtækisins hafa mætt sérstaklega vel til vinnu og enginn þeirra kvartað undan óþægindum vegna reyks eða lyktar. United Silicon er annt um starfsmenn sína sem og bæjarbúa alla, heilsa þeirra og öryggi er í forgangi“. Þetta kemur fram í nýrri yfirlýsingu frá fyrirtækinu til fjölmiðla í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla síðustu daga um starfsemi United Silicon.

1. desember 2016
Setja upp loftgæðamæli í Heiðarhverfi Í KEFLAVÍK

Loftgæðamælir verður settur upp í nágrenni við Heiðarskóla til að mæla mengun frá kísilveri United Silicon. Þetta er meðal þess sem fram kom í spjalli Sjónvarps Víkurfrétta við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar og Sigríði Kristjánsdóttur, teymisstjóra eftirlitsteymis hjá Umhverfisstofnun. Sigríður mætti á fund bæjarráðs Reykjanesbæjar  vegna loftmengunar frá kísilverinu.

9. desember 2016
Halda íbúafund vegna mengunar frá kísilveri United Silicon

Haldinn verður íbúafundur vegna mengunar frá kísilveri United Silicon í Helguvík næsta miðvikudag, 14. desember klukkan 20:00. Fulltrúar frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, United Silicon, Orkurannsóknum Keilis og Umhverfisstofnun munu flytja framsögu. Á fundinum verða pallborðsumræður og opið fyrir fyrirspurnir úr sal. Fundurinn verður haldinn í Stapa.

14. desember 2016
Íbúafundur: Ekki samkvæmt reglum að reykur fari út um dyr verksmiðju

Fulltrúi United Silicon, Kristleifur Andrésson, fjallaði í framsögu sinni á íbúafundi í Stapa nú áðan meðal annars um myndband af starfseminni sem birt var á vef Stundarinnar á dögunum. Þar sagði hann að þar hafi starfsmenn verið að gera svokallaða kísilsæng. Hann sagði aðferðina notaða víða um heim en að ekki standi til að nota hana almennt í kísilverinu. Í myndbandinu sést reykur úr framleiðslunni fara út um dyr verksmiðjunnar og sagði hann það ekki samkvæmt starfsreglum.

5. janúar 2017
Ekki í samræmi við starfsleyfi að kísilryk sleppi út

Umhverfisstofnun bárust sex kvartanir um lykt frá kísilveri United Silicon í Helguvík á gamlársdag og tvær þriðjudaginn 2. janúar. Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, teymisstjóra eftirlitsteymis hjá stofnuninni berast kvartanir með nokkuð jöfnu millibili. Á gamlársdag var norðanátt og voru nokkrir íbúar sem tjáðu sig á samfélagsmiðlum um lyktina sem þeir töldu berast frá kísilverinu.

2. febrúar 2017
Slökkt tímabundið á ofni kísilvers vegna bilunar

Búið er að slökkva á ofni kísilvers United Silicon í Helguvík vegna bilunar. Að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, uppgötvaðist leki með einni af fimm töppunarholum úr ofninum á mánudag í síðustu viku. Lekinn var vegna galla í steyptri blokk í holunni en slíkar töppunarholur eru notaðar til að hleypa málmi úr ofninum. „Það var ákveðið að slökkva á ofninum og gera fullnaðarviðgerð á þessu. Það tekur nokkra daga að fá bæði blokkirnar og viðgerðarefni,“ segir hann.

16. febrúar 2017
58 ábendingar um lyktarmengun til Umhverfisstofnunar

Umhverfisstofun hafa borist 58 ábendingar um lyktarmengun frá kísilveri United Silicon í Helguvík síðan í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er svo mikill fjöldi ábendinga á svo stuttum tíma fáheyrður.
Víkurfréttir greindu frá því í morgun að fjölmargir íbúar hafi tjáð sig um lyktarmengunina á samfélagsmiðlum og kvörtuðu yfir því að geta ekki haft glugga opna né verið lengi úti við.
Fulltrúar Umhverfisstofnunar munu fara í eftirlitsferð í kísilverksmiðjuna á morgun.

22. febrúar 2017
Bæjarfulltrúar vilja stöðva mengun frá kísilverksmiðju

Bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar tóku á bæjarstjórnarfundi í gær undir áhyggjur annarra íbúa af þeirri mengun sem komið hefur frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík og athugasemdir þeim tengdum. Enn berast kvartanir til Umhverfisstofnunar vegna lykt- og loftmengunar frá verksmiðjunni. Fulltrúar United Silicon og Umhverfisstofnunar munu koma á fund bæjarráðs 2. mars nk.
Nokkrar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í gær vegna verksmiðju United Silicon í Helguvík eftir að Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar opnaði umræðuna. Lýstu bæjarfulltrúar m.a. yfir þungum áhyggjum af því hversu brösuglega starfsemin hefur gengið frá upphafi.

23. febrúar 2017
Óljóst hvaða efni koma frá kísilverksmiðju

Fulltrúar Umhverfisstofnunar telja ljóst að greina þurfi hvaða efni gætu verið í útblæstri United Silicon í Helguvík, sérstaklega þegar eitthvað kemur upp á við rekstur ofns verksmiðjunnar. Í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi United Silicon í gær segir að áformað sé að fram fari verkfræðileg úttekt á rekstri og hönnun verksmiðjunnar en við rekstur hennar hafa ítrekað orðið mengunaróhöpp með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa á svæðinu. Umhverfisstofnun telur ljóst af kvörtunum íbúa að dæma að þau áhrif og einkenni sem fólk lýsi feli í sér skerðingu á lífsgæðum sem ekki var gert ráð fyrir í aðdraganda leyfisveitingar til kísilverksmiðjunnar.

24. febrúar 2017
Umhverfisstofnun skilgreini hvenær lykt breytist í ólykt

„Það er vissulega umhugsunarefni að í 16 þúsund manna byggðalagi skuli grunsemdir um uppruna lyktarmengunar eingöngu beinast að rekstri United Silicon þótt ljóst sé að lykt gæti borist frá starfsemi mun fleiri fyrirtækja á svæðinu“. Þetta kemur fram í athugasemd sem United Silicon var að senda frá sér vegna fjölmiðlaumræðu um fyrirtækið síðustu daga.

27. mars 2017
Bæjaryfirvöld vilja láta loka United Silicon

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ vilja láta loka kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík sem fyrst og hafa sent erindi þess efnis til Umhverfisstofnunar. Fulltrúar Umhverfisstofnunar munu funda með bæjarráði næsta fimmtudag og fara yfir stöðu mála varðandi mengun frá verksmiðjunni. Nýlega lágu fyrir niðurstöður mælinga sem sýndu að styrkur arsens í andrúmslofti er mun meiri en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar.

31. mars 2017
Foreldrar lýsa yfir áhyggjum af mengun
Foreldrar barna í grunnskólanum Heiðarskóla og í leikskólanum Heiðarseli lýsa yfir þungum áhyggjum af mengun frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Áhyggjunum komu foreldrafélög skólanna á framfæri við bæjarráð Reykjanesbæjar í gær.

18. apríl 2017
Engin framleiðsla hjá United Silicon næstu daga

Lögregla rannsakar nú bruna sem kom upp í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík í nótt. Brunavarnir Suðurnesja fengu tilkynningu um eldinn um klukkan fjögur í nótt og þá logaði í trégólfum á efstu þremur hæðum verksmiðjunnar sem er á átta hæðum.
Að sögn Kristleifs Andréssonar, stjórnanda öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon urðu engin slys á fólki í eldsvoðanum. Framleiðsla mun liggja niðri í verksmiðjunni næstu daga á meðan lagfæringar fara fram eftir brunann.
Slökkvilið var síðast kallað að verksmiðjunni fyrir tveimur vikum síðan, þann 4. apríl, en þá slettist málmur á trébretti með þeim afleiðingum að í þeim kviknaði.

19. apríl 2017
Óstöðugleiki í ofni rímar við ábendingar íbúa

Umhverfisstofnun hefur kynnt United Silicon þau áform sín að stöðva rekstur verksmiðjunnar um óákveðinn tíma vegna mengunaróhappa sem valdið hafa íbúum í Reykjanesbæ óþægindum.  „Málið stendur þannig núna að miðað er við að ofninn verði ekki ræstur nema í samráði við Umhverfisstofnun,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun.
Eldsvoði kom upp í kísilverksmiðjunni aðfararnótt þriðjudags og er því engin framleiðsla þar núna þar sem unnið er að viðgerðum. Sigrún segir það ljóst að óstöðugleiki sé í gangi ofns verksmiðjunnar og að hann rími við tímasetningar á ábendingum íbúa. Þegar slökkva þurfi á ofninum í klukkustund eða lengur finni íbúar fyrir mengun og óþægindum.

30. apríl 2017
Byggingafulltrúi samþykkti of háa byggingu Silicon

Ljóst er að byggingafulltrúi Reykjanesbæjar gerði mistök þegar hann samþykkti teikningar af kísilveri United Silicon en þær gerðu ráð fyrir 13 metrum hærri byggingu en deiliskipulag leyfði. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri staðfestir það í pistli á Facebook í dag þar sem hann leiðréttir einnig villu í frétt RÚV um að Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt byggingarleyfið. Samþykktin hafi verið hjá embætti byggingafulltrúa bæjarins.

7. júlí 2017
Efni frá United Silicon valda óþægindum

Sóttvarnalæknir hefur farið yfir upplýsingar frá læknum heilsugæslu Suðurnesja, fjölda ákveðinna sjúkdómsgreininga og sölu öndunarfæralyfja á Suðurnesjum. Einnig hefur hann farið yfir kvartanir frá íbúum í nágrenni verksmiðju United Silicon í Helguvík og þeim mæliniðurstöðum sem fyrir liggja.
Mat Sóttvarnalæknis á fyrirliggjandi upplýsingum um heilsufarsáhrif mengunar frá verksmiðjunni er að hún virðist valda vægri ertingu í augum og öndunarvegi hjá heilbrigðum einstaklingum sem eru mismikil milli einstaklinga.

14. ágúst 2017
Sameinað Silicon ehf. fær heimild til nauðasamninga

Héraðsdómur Reykjaness veitti í dag stjórn Sameinaðs Silicons ehf. heimild til greiðslustöðvunar sem miðar að því að ná bindandi nauðasamningum við lánadrottna. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni.

16. ágúst 2017
Bilun í hringekju verksmiðju United Silicon

Ástæða þess að mikinn reyk lagði frá verksmiðju United Silicon í hádeginu í dag var vegna bilunar í hringekju. Að sögn Kristleifs Andréssonar hjá United Silicon var málmi hellt í sæng vegna þessarar bilunar, þar er afsog takmarkað og þess vegna fór mikið af reyknum út.
Viðgerð stendur yfir og er von á því að þetta verði komið í lag fljótlega. Reykurinn sem slapp út er ekki talinn heilsuspillandi.

19. ágúst 2017
Garðveisla endaði snögglega vegna lyktar kísilvers

Garðveisla Friðjóns Einarssonar, formanns bæjarráðs Reykjanesbæjar, sem haldin var í kvöld á Þverholti í Reykjanesbæ, endaði snögglega. Ástæðan var lykt frá kísilveri United Silicon. Reka þurfti alla gesti inn í hús til að flýja lyktina, astmalyf voru þá tekin fram og gluggum og hurðum lokað.

24. ágúst 2017
Umhverfisstofnun hyggst stöðva rekstur United Silicon

Fyrirtækið United Silicon fékk sent bréf í gærkvöldi frá Umhverfisstofnun (UST). Bréfið er þess eðlis að Umhverfisstofnun hyggst stöðva rekstur kísilverksmiðjunnar þann 10. september næstkomandi. Ástæða rekstrarstöðvunarinnar er að UST telur að það þurfi að gera nauðsynlegar úrbætur á verksmiðjunni.

1. september 2017
Umhverfisstofnun stöðvar starfsemi United Silicon

Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að stöðva starfsemi Sameinaðs Sílikons hf., sbr. lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtækinu hefur verið kynnt sú ákvörðun með bréfi.
Óheimilt er að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá Umhverfisstofnun að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.

4. september 2017
United Silicon veitt greiðslustöðvun

United Silicon var veitt greiðslustöðvun í dag af Héraðsdómi Reykjaness þar til 4. desember, eða í þrjá mánuði. Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður, er aðstoðarmaður skuldarans á greiðslustöðvunartíma, en hann segir að með greiðslustöðvuninni sé verið að reyna að koma rekstri verksmiðjunnar á rétt ról.

11. september 2017
Kæra fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon

Stjórn United Silicon hefur í samráði við lögmann félagsins og aðstoðarmann í greiðslustöðvun sent kæru til Embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi fyrrverandi forstjóra og stofnanda United Silicon.

20. september 2017
Arion banki og lífeyrissjóðir eignast kísilverið

Arion banki og fimm lífeyrissjóðir hafa tekið yfir 98,13% hlut í United Silicon. Hluthafafundur United Silicon hf. fór fram í gær, 19. september. Þetta staðfestir Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi United Silicon, í samtali við Víkurfréttir.

16. nóvember 2017
Útilokar ekki gjaldþrot United Silicon

Arion banki hefur afskrifað 4,8 milljarða króna vegna kísilvers United Silicon í Helguvík. Bankastjóri Arion banka, Höskuldur H. Ólafsson, segir að tapið sé stórt, þannig að út af fyrir sig sé hægt að segja að það hafi verið rangt að lána í þetta verkefni. Bankinn er sem stendur að borga starfsmönnum verksmiðjunnar laun, borgar raforkugreiðslur og annan kostnað. Höskuldur segir einnig að það sé ekki útilokað að félagið fari í þrot og að bankinn gangi þá að sínum kröfum.

4. desember 2017
United Silicon veitt greiðslustöðvun til loka janúar

United Silicon fékk áframhaldandi greiðslustöðvun til 22. janúar næstkomandi, en Héraðsdómur Reykjanes samþykkti þá beiðni í dag.

22. janúar 2018
Stjórn United Silicon óskar eftir gjaldþrotaskiptum

Stjórn United Silicon hf. hefur farið fram á gjaldþrotaskipti félagsins og beiðni hefur verið send til Héraðsdóms Reykjaness. Útséð þykir að nauðasamningar náist og því ekki forsendur fyrir beiðni um frekari framlengingu á greiðslustöðvun.