Kirkjustarfið heldur áfram utan Grindavíkur
Grindavíkurkirkja slapp ótrúlega vel
„Kirkjan okkar slapp ótrúlega vel og mátti ekki miklu muna að illa hefði farið. Ég hef ekki séð neinar teljandi skemmdir, bara einhverjar litlar sprungur í gólfum en það voru sprungur fyrir svo það verður ekki mikið mál að laga það held ég,“ segir Sr. Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavík.
Kirkjustarfið í Grindavík raskaðist eins og öll önnur starfsemi í bænum við hamfarirnar þann 10. nóvember. Um leið og þjónustumiðstöðin opnaði í gamla tollahúsinu færðist kirkjustarfið má segja þangað inn og þannig verður það áfram, þótt útlit sé fyrir að Grindvíkingum verði hleypt aftur inn í bæinn til búsetu. Minnstu munaði að Grindavíkurkirkja færi illa í hamförunum en hún slapp sem betur fer.
„Þetta er búinn að vera skrýtinn tími, ég hef hitt mikið af fólki og mikið hjálparstarf hefur verið í gangi. Um leið og þjónustumiðstöðin opnaði í gamla tollahúsinu, opnaði ég mína skrifstofu á fjórðu hæðinni og hef verið þar alla daga síðan þá. Ég hef verið að fá mikið af fólki upp til mín en hef sömuleiðis verið mikið niðri á þriðju hæðinni þar sem Grindvíkingar hafa verið að koma saman. Í desember er alltaf talsvert um að fólk sé hjálparþurfi og hvað þá á tímum eins og núna svo það var talsverður erill hjá mér en eins vildi ég líka geta hitt aðra Grindvíkinga sem komu saman. Allt kirkjustarfið færðist má segja inn í þessa þjónustumiðstöð, t.d. eldri borgarastarfið og sunnudagsskóli barnanna. Organistinn okkar hann Kristján Hrannar, færði sömuleiðis allt kórastarfið inn í þjónustumiðstöðina en svo gátum við haldið aðventuhátíðina okkar í Ástjarnarkirkju í Hafnarfirði og jólatónleikar kórs Grindavíkurkirkju og barnakórs Grindavíkur, fóru svo fram í Bústaðakirkju og tókust einkar vel. Ég, sóknarnefndin og Kristján Hrannar, tókum svo ákvörðun um að halda jólamessu í Garðakirkju klukkan þrjú á aðfangadag. Við gátum í raun valið þann tíma sem við vildum en töldum þetta heppilegan tíma og það var fín mæting í þessa messu,“ segir Elínborg.
Þótt hylli undir að Grindvíkingar geti snúið aftur til síns heima, mun starfsemi Grindavíkurbæjar og kirkjunnar áfram fara fram í Reykjavík. Minnstu munaði að illa færi fyrir Grindavíkurkirkju en mjög stór sprunga myndaðist nokkra metra frá kirkjunni. „Það var mikil mildi, í raun ótrúlegt að ekkert skyldi koma fyrir kirkjuna miðað við skemmdirnar rétt fyrir utan. Kannski að þeir sem byggðu kirkjuna á sínum tíma hafi verið forsjálir, vitandi af þessari sprungu. Sem betur fer skemmdist kirkjan okkar ekkert en það breytir því ekki að starfsemi kirkjunnar mun áfram fara fram í þjónustumiðstöðinni í Reykjavík. Ég mun því ekki flytja strax heim, ég og Hörður maðurinn minn fengum strax íbúð nálægt Hlíðarenda og þar getum við verið áfram. Þetta verður svona áfram en um leið og eitthvað breytist, verður lítið mál að flytja aftur til Grindavíkur en ég á ekki von á að það verði fyrr en með vorinu. Mér skilst að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær muni gjósa næst, ég held að það verði í janúar en vonandi verður það á svipuðum stað og síðast. Skólastarfið mun væntanlega klárast í Reykjavík og á meðan svo er, hef ég ekki trú á að margir foreldrar muni flytja til Grindavíkur. Þetta verður bara allt að koma í ljós og við tökum því sem að höndum ber,“ sagði sr. Elínborg að lokum.