Kirkja í 19. aldar byggingarstíl
– Segir kirkjuna hluta að uppbygging í ferðaþjónustu
Birgir Þórarinsson hefur óskað eftir því að fá að byggja 40 fermetra kirkju á landi við heimili sitt að Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Eins og við greindum frá í síðasta blaði hefur Birgir sent inn formlega kvörtun til bæjaryfirvalda í Vogum vegna málsmeðferðar skipulags- og byggingafulltrúa og umhverfis- og skipulagsnefndar. Bæjaryfirvöld í Vogum segja málið í eðlilegum farvegi og í dag til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins.
„Kirkjan verður byggð úr timbri í íslenskum 19. aldar byggingarstíl. Hún er lítil, eða 40 fermetrar, og mun taka 30 manns í sæti, svokölluð bændakirkja,“ segir Birgir Þórarinsson í samtali við Víkurfréttir.
Birgir segir kirkjubygginguna vera hluta að uppbyggingu í ferðaþjónustu, sem rekin er að Minna Knarrarnesi. „Það hefur verið nokkuð um að brúðhjón hafi gist hjá okkur og við höfum fengið fyrirspurnir um hvort að það væri hægt að gifta sig hér. Það má því segja að þetta hafi verið kveikjan að hugmyndinni að byggja kirkju, auk þess er ég áhugamaður um guðfræði og hinn gamla íslenska byggingarstíl“.
Erlendir ferðamenn eru almennt mjög áhugasamir um litlar íslenskar sveitakirkjur, þær vekja athygli. „Sveitarfélagið Vogar hefur hins vegar því miður ekki verið eins áhugasamt um þessi áform okkar. Það eru vonbrigði þar sem ég er sannfærður um að byggingin verður sveitarprýði. Það er komið meira en eitt ár síðan við sóttum um byggingarleyfi og það er ekki enn komið. Þar sem ég þekki til eins og á Suðurlandi eru sveitarfélög almennt mjög áhugasöm um uppbyggingu í ferðaþjónustu og leggja sig fram í þeim efnum,“ segir Birgir.
Birgir kvartaði til bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga vegna málsmeðferðarinnar og er m.a. ósáttur við vinnubrögð skipulags- og byggingafulltrúa. „Ég er þeirrar skoðunar að stjórnsýslulög hafi verið brotin í málinu. Bæjarráð bókaði að byggingin samræmdist ekki aðalskipulagi og landnotkun. Þrátt fyrir að ég hafi undir höndum tvö bréf frá umhverfis- og skipulagsnefnd, sem segja að byggingin samræmist aðalskipulagi og frávik frá landnotkun séu óveruleg. Það er greinilegt að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir á bæjarskrifstofunni. Það sjá það allir að þetta er afleit stjórnsýsla. Bæjarstjóri svarar auk þess ekki athugasemdum mínum. Ég vil þó taka það fram að nýr formaður umhverfis- og skipulagsnefndar, sem er skelegg kona, er áhugasöm um verkefnið og hefur þokað málinu áfram, sem ég er þakklátur fyrir. Það er loks komið í grenndarkynningu,“ segir Birgir Þórarinsson í samtali við blaðið.