Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kílóin fjúka á Ásbrú
Myndin var tekin yfir fullan sal af fólki í Andrews í gærkvöldi. VF-mynd: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 14. janúar 2014 kl. 09:57

Kílóin fjúka á Ásbrú

Forsýning fyrsta þáttar Biggest Loser Ísland fór fram í Andrews menningarhúsinu á Ásbrú í gærkvöldi. Mikill fjöldi fólks mætti á forsýninguna en á þriðja hundrað manns voru á sýningunni.

Þættirnir Biggest Loser Ísland voru framleiddir á Ásbrú og víðar á Suðurnesjum og fær náttúra svæðisins að njóta sín í þáttunum. Í fyrsta þættinum, sem forsýndur var í gær mátti sjá þátttakendur takast á við krefjandi verkefni við Gunnuhver, Reykjanesvita, Garðskaga og í Þórkötlustaðarrétt.

Liðsforingjaklúbbnum á Ásbrú var jafnframt breytt í eina flottustu líkamsræktarstöð landsins fyrir gerð þáttanna og þátttakendur bjuggu allir á Ásbrú á meðan gerð þáttanna stóð. Framleiðslan stendur reyndar enn yfir því lokaþátturinn verður í beinni útsendingu í apríl.

Árangur þátttakenda strax í fyrsta þætti er einnig eftirtektarverður og má sjá hreint ótrúlegar tölur á vigtinni strax eftir fyrstu keppnisvikuna. Óhætt er að segja að kílóin fái að fjúka á Ásbrú.

Fyrsti þátturinn verður frumsýndur á Skjá Einum þann 23. janúar nk. Það er Saga Film sem framleiðir þættina.

Á myndinni hér til hægri er Eyþór Árni Úlfarsson sem er þátttakandi í Biggest Loser Ísland. Eyþór er búsettur á Ásbrú og var 249 kg þegar hann hóf þátttöku í þáttunum. Hann var í viðtali við Víkurfréttir í síðustu viku um lífsreynslu sína.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024