KFC um páskana
Eflaust eru einhverjir matgæðingar orðnir óþolinmóðir vegna tafa á opnun Kentucky Fried Chicken í Reykjanesbæ. Framkvæmdir hafa staðið síðan í byrjun árs en kjúklingaunnendum þykir þetta taka óralangan tíma. Víkurfréttir greindu frá því í sumar að eigendur KFC ætluðu sér að opna fyrir Ljósanótt en svo varð raunin ekki.
Víkurfréttir höfðu samband við athafnamanninn Helga Vilhjálmsson, sem oft er kenndur við Góu, og spurðu hvenær KFC myndi opna. „Við lentum í smá vandamálum í byrjun en þetta er komið á fullt skrið núna,“ sagði Helgi. „Það er stefnt að því að opna fyrir páska en við fáum húsið afhent um áramótin,“ sagði Helgi og bætti því við að hann teldi að staðurinn yrði mikil lyftistöng fyrir svæðið.
Staðurinn sem opnar í Reykjanesbæ verður sá stærsti á Íslandi, sannkallað flaggskip kjúklingastaða, en inni í húsinu verður ævintýraland fyrir börnin og fl.
Myndin: KFC húsið farið að taka á sig mynd VF-myndin: Atli Már Gylfason