Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Keyptu ekki flugrekstur að mati Flugmálastjórnar
Mánudagur 29. október 2012 kl. 10:00

Keyptu ekki flugrekstur að mati Flugmálastjórnar

Forsvarsmenn WOW air segjast hafa yfirtekið flugrekstur Iceland Express. Þetta er ekki rétt samkvæmt tilkynningu Flugmálastjórnar. WOW air getur þó kallað sig flugfélag. Það er vefurinn Túristi.is sem greinir frá þessu

Aðeins þeir sem reka loftför í atvinnuskyni geta kallað sig flugrekendur samkvæmt tilmælum Flugmálastjórnar sem birt voru á föstudag, í kjölfar yfirtöku WOW air á Iceland Express. Þar segir jafnframt: „Iceland Express og WOW air hafa vissulega stuðlað að reglubundnum flutningi á fólki og vörum til og frá Íslandi og aukinni samkeppni, en þeir hafa til þess þurft að fá flugrekenda frá Evrópska efnahagssvæðinu með tilskilin flugrekstrarleyfi til að annast flugið fyrir sig."

Í tilkynningu WOW air vegna kaupanna segir hins vegar að félagið hafi „... tekið yfir allan flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express." Forsvarsmenn WOW air og Flugmálastjórnar eru því ekki sammála um skilgreiningu á orðinu flugrekstur.


Öllum frjálst að segjast vera flugfélag hér á landi en ekki í Noregi

Líkt og Túristi sagði frá nýverið þá hefur norska loftferðaeftirlitið bannað nýju þarlendu fyrirtæki að kalla sig flugfélag. Markmið þessa aðila er að bjóða upp á áætlunarflug með leiguvélum líkt og WOW air og Iceland Express hafa gert. Íslensk stjórnvöld eru hins vegar ekki til í að ganga jafn langt og þau norsku því í fyrrnefndri tilkynningu Flugmálastjórnar segir: „... hugtakið flugfélag ekki skilgreint í lögum um loftferðir né kemur fyrir í reglugerðum byggðum á þeim lögum. Hvaða aðili sem er getur því í raun nefnt starfsemi sína flugfélag og ferðaskipuleggjendurnir Iceland Express og WOW air hafa gert það".

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024