Kettlingar fundust lokaðir í pappakassa
Þrír stálpaðir kettlingar fundust lokaðir ofan í pappakassa utan við eitt af fjölbýlishúsunum að Ásbrú í Reykjanesbæ. Kettlingarnir eru nú komnir á kattahótelið hjá K-9 í Reykjanesbæ þar sem þeir fá vistun í viku til tíu daga áður en þeir fara á vit feðra sinna, nema einhver gefi sig fram sem vill eignast þá og veita ást og umhyggju.
Þeir sem vilja eignast kisurnar, eina eða allar þrjár, verða að gefa sig fram við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja. Auk þessara þriggja systkina þá eru alltaf einhverjar heimilislausar kisur og kettlingar í geymslu hjá K-9. Starfsfólkið þar hefur hins vegar ekki leyfi til að láta dýrin frá sér, þar sem Heilbrigðiseftirlitið þarf að halda skrá yfir það hvar dýrin fá búsetu og greiða þarf af þeim leyfisgjöld.
Á meðfylgjandi mynd er Erla Ósk Ingibjörnsdóttir, starfsmaður K-9, með kisurnar þrjár sem fundust í pappakassa að Ásbrú. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson