Kergja vegna Kölku
Breytingar á rekstrarformi Kölku eru í uppnámi þar sem Grindavíkurbær vill ekki fallast á stórnskipan út frá eignaraðild sveitarfélaganna. Bæjarráð Reykjanesbæjar, sem á 65% í félaginu, vill ekki sæta minnihlutastöðu í félaginu og íhugar nú að draga sig út úr því.
Breytt rekstrarform á Kölku hefur verið til umfjöllunar um nokkurn tíma hjá eignaraðilum, sem eru sveitarfélögin á Suðurnesjum. Rekstur félagsins hefur verið afar erfiður fjárhagslega. Ákveðið var að breyta rekstrarforminu í hlutafélag með það fyrir augum að endjurskipuleggja reksturinn. En nú hefur sumsé hlaupið snuðra á þráðinn.
Bæjarráð Reykjanesbæjar fjallaði um málið á fundi fyrir skemmstu þar sem það lýsti yfir miklum vonbrigðum með afstöðu bæjarstjórnar Grindavíkur „og þann augljósa vilja þeirra að Reykjanesbær, sem rúmlega 65% eigandi, þurfi að sæta minnihlutastöðu í stjórn félagsins,“ eins og segir í fundargerð.
Hefur bæjarstjóra verið falið að kanna möguleika Reykjanesbæjar á því að draga sig út úr félaginu eða bjóðast til að yfirtaka rekstur þess í samstarfi við aðila sem kynnu að hafa áhuga á því.