Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Kennurum Háaleitisskóla nóg boðið eftir launahækkanir embættismanna
Mánudagur 7. nóvember 2016 kl. 10:25

Kennurum Háaleitisskóla nóg boðið eftir launahækkanir embættismanna

- Vilja samræmda vinnustöðvun strax

Kennurum við Háaleitisskóla í Reykjanesbæ er nóg boðið eftir ákvörðun Kjararáðs á dögunum um ríflegar hækkanir launa embættismanna. Þeir telja núverandi ástand í kennarastéttinni ólíðandi þar sem æ fleiri flýji í önnur störf og færri sæki í nám grunnskólakennara. Þeir fara fram á að gripið verði strax til aðgerða til að framkalla samræmda vinnustöðvun graunnskólakennara og telja það skyldu Kennarasambands Íslands að fara að þeim tilmælum. Kennararnir samþykktu eftirfarandi ályktun á kennarafundi síðasta föstudag. Hún var send til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ og til Kennarasambands Íslands.


Þolinmæði kennara Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, er á þrotum. Við teljum að lítið sé gert úr okkar störfum og nýjustu fréttir af launahækkunum æðstu ráðamanna er kornið sem fyllti mælinn. Algerlega óháð því hvort kjararáð dragi sinn úrskurð til baka hafa kennarar enga þolinmæði lengur gagnvart samningaviðræðum sem miða að því að láta fjölbreytt skólastarf passa í „Excel skjal“ og hártoganir um atriði sem litlu máli skipta. Við vitum í hverju starf okkar felst og þurfum ekki að láta skilgreina það fyrir okkur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir frá því í vor og hafa tvívegis hafnað nýjum kjarasamningum. Í þeim samningum hefur aðeins verið boðið upp á launahækkanir sem rúmast innan SALEK samkomulagsins. Kennarasambandið er ekki hluti af því samkomulagi og sættum við okkur ekki við að semja um okkar kjör á forsendum þess. Einnig er ómögulegt að troða grunnskólum landsins í fyrrnefnt Excel skjal því þar er ekki tekið tillit til þess fjölbreytileika sem fylgir skóla án aðgreiningar.
 

Núverandi ástand í stéttinni er ólíðandi og æ fleiri kennarar flýja í önnur störf, færri sækja í grunnskólakennaranámið og því er framtíðin mjög óljós. Hvorki ríki né sveitarfélög geta lengur vikið sér undan ábyrgð og hvað þá falið sig á bak við samninganefnd sveitarfélaga. Við viljum hærri laun en ekki stöðuga sölu á réttindum okkar og krefjumst launa samkvæmt menntun og þeirri ábyrgð sem við berum í okkar starfi.

Að lokum viljum við einnig benda á að um miðja síðustu öld voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara og förum fram á að það viðmið verði tekið upp að nýju.
 

Við förum fram á að gripið verði til aðgerða til að framkalla samræmda vinnustöðvun grunnskólakennara strax og teljum það skyldu KÍ að fara að þeim tilmælum.

Ályktun þessi var samþykkt á kennarafundi 2. nóvember 2016.

Kennarar við Háaleitisskóla, Reykjanesbæ