Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kenning um að gas hafi myndað ganginn undir Grindavík heldur ekki vatni
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 11. janúar 2024 kl. 06:17

Kenning um að gas hafi myndað ganginn undir Grindavík heldur ekki vatni

Kvikugangurinn sem myndaðist í náttúruhamförum við Grindavík þann 10. nóvember 2023 er Grindvíkingum hugleikinn. Hann er áhrifavaldur í lífi allra Grindvíkinga, sem var gert að rýma heimili sín í Grindavík að kvöldi 10. nóvember, þegar neyðarstigi almannavarna var lýst yfir. Grindvíkingar máttu ekki gista á heimilum sínum vikum saman en það var ekki fyrr en á Þorláksmessu sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum heimilaði veru í húsum allan sólarhringinn. Það gera heimamenn þó á eigin ábyrgð, eins og ítrekað hefur verið nokkrum sinnum.

Þeir sem harðast fara fram í því að lífið komist aftur í fastar skorður í Grindavík, og bæjarbúar flytji aftur heim, hafa jafnvel haldið því fram að enginn kvikugangur liggi undir byggðinni í Grindavík. Hamfarirnar 10. nóvember séu vegna hreyfinga á flekaskilum og það hafi verið gas en ekki kvika sem myndaði ganginn sem er um 15 kílómetra langur og liggur frá suðvestri í norðaustur frá sjó og inn á Reykjanesskagann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðeins ein kenning heldur vatni

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir ýmsar kenningar hafa komið fram um kvikuganginn, sem m.a. liggur undir Grindavík, en bara ein sem haldi vatni.

Magnús Tumi segir mælingarnar sýna mikla gliðnun í Grindavík. Sprungurnar á yfirborði eru samanlagt gliðnun upp á nokkra metra en þær mynduðust á nokkrum dögum í kjölfar hamfaranna þann 10. nóvember.

Vísindamenn Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands hafa eftirfarandi gögn um hvað þarna var á ferðinni:

Fyrst skal nefna jarðskjálftamælingarnar. Þá eru GPS-mælingar, gervitunglamyndir og bylgjuvíxlmælinar ásamt kortum sem unnin voru eftir atburðinn sem sýna aflögun. Þá eru óbein gögn sem eru t.d. mælingar á gasi sem sleppur út í andrúmsloftið.

Eingöngu kvika getur verið skýringin

Hvernig túlkar þú það sem gerðist?

„Ekki er hægt að skilja jarðskjálftamælingarnar og aflögunina öðruvísi en að allt að átta metra gliðnun hafi orðið undir Grindavík vestanverðri neðan eins til eins og hálfs kílómetra dýpis. Það gerðist að mestu 10. nóvember.  Bergið ofan við sat eiginlega eftir og var að aðlagast í nokkra daga og þess vegna myndast sprungurnar á þeim tíma.“

Magnús Tumi segir að eitthvað hafi farið inn í þetta rými sem varð til og gefur sér tvo möguleika, gas eða kviku. 

„Ef það var gas, sem náði þá upp á eins til eins og hálfs kílómetra dýpi, hefði þurft að vera á því gríðarlegur þrýstingur. Ef ekki, hefði kvikan sem þarna kom upp og fyllti sprunguna norðar [frá Hagafelli og norður fyrir Stóra-Skógfell] fossað með gríðarlegum látum inn í rýmið, því það eina sem hefði haldið aftur af henni hefði verið mjög mikill mótþrýstingur gassins.

En segjum samt að þarna hafi gas verið á ferðinni. Þá er útilokað að það væri þarna ennþá því þakið yfir er brotið og lekt svo gasið hefði streymt upp. Ekkert af þessu gerðist, sem þýðir að eingöngu kvika getur verið skýringin. Það er líka í takt við allt það sem jarðfræðin sýnir okkur í rofnum stafla, hvergi finnast merki um „gashólf“. Ef þetta var kvika, þá gengur allt upp. Þá fossaði kvikan suður og fyllti upp í rýmið sem myndaðist. Hún er þar ennþá, en að mestu storknuð.“

Með hliðstæðu úr Kröflueldum

Magnús Tumi segir að hliðstæð atburðarás hafi sést í Kröflueldum. „Þar flæddi kvika neðanjarðar alla leið undir Öxarfjörð frá Kröflu í fyrsta atburðinum. Gliðnunin var hvað mest þar norður frá. Sennilega vegna þess að þegar kvikugangurinn mætir mótstöðu nærri endanum þá þrýstir kvikuflæðið landinu út til hliðanna, af því kvikan kemst ekki lengra.“

Gaslíkanið gengur mjög illa upp

„Þannig að gaslíkanið gengur mjög illa upp, meðan kvikulíkanið gengur vel upp,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Víkurfréttir.