Kenna læsi á frumlegan hátt
Leikskólinn Holt í Reykjanesbæ hlaut á dögunum verðlaun frá Evrópusambandinu fyrir verkefnið Read the World eða Lesum heiminn. Verðlaunin voru afhent á fjölmennri verðlaunahátíð í Aþenu og tók Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri á Holti, við þeim. Áður hafið verkefnið hlotið verðlaun frá Rannís (Rannsóknarmiðstöð Íslands) fyrir að hugsa út fyrir rammann og notast við skapandi hugsun. Verkefnið gengur út á að efla kunnáttu leikskólanemanda í læsi í sinni víðustu mynd, ekki aðeins að þau læri stafi og tölustafi, heldur er einnig unnið, meðal annars, með stafrænt læsi, félagslegt, tilfinningalegt og með umhverfislæsi. Að sögn Kristínar Helgadóttur, leikskólastjóra á Holti, var það sú óhefðbundna leið sem notuð er til að kenna læsi sem vakti athygli dómnefndar. „Með aðferðinni sem við notum þá átta börnin sig oft ekki á því að við séum að kenna læsi. Það er svo einfalt að vekja áhuga barnanna þegar við erum í leik. Það var þessi nálgun sem vakti athygli á verkefninu,“ segir hún. Ráðist var í læsisátak í leik- og grunnskólum í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ árið 2011 og var unnið að sameiginlegri framtíðarsýn. Læsisverkefnið var unnið í framhaldi af þeirri ákvörðun.
Verkefnið sem hlaut Evrópuverðlaunin á dögunum stóð yfir frá 2014 til 2015 og var þá unnið með söguna af Greppikló eftir Juliu Donaldson og Axel Scheffler. Í ár er unnið að sams konar verkefni og á Holti en nú með söguna af Græna kettinum eftir Önnu Sofiu Wahlström sem er deildarstjóri á Holti. Verkefnin eru svokölluð eTwinning verkefni sem falla undir Menntaáætlun Evrópusambandsins og eru unnin í nánu samstarfi við skóla í öðrum löndum. Verkefnið um Greppikló var unnið í samstarfi við skóla í Póllandi, Slóveníu, Frakklandi og Spáni. Sigurbjört hafði umsjón með verkefninu um Greppikló og segir hún alþjóðlega samstarfið hafa verið mjög lærdómsríkt, bæði fyrir kennarana og börnin. „Skólarnir eru mismunandi og menningin sömuleiðis. Það er þó alltaf hægt að finna eitthvað sameiginlegt og það er það sem við viljum kenna börnunum, að við erum öll meira og minna eins.“
Sagan af Greppikló var nýtt í ótalmörg verkefni og það sama er gert með söguna af Græna kettinum sem unnið er með á Holti núna í vetur. „Við hvetjum börnin til að vera skapandi í hugsun og lesa heiminn. Þau eru að lesa sér til gagns og skynja heiminn. Við nýttum söguna af Greppikló í ýmis verkefni, til dæmis bjuggum við til minnisspil og borðspil.“ Þegar blaðamenn Víkurfrétta bar að garði á dögunum voru elstu börnin úti að smíða grænan kött og þau yngri að búa til bolta handa honum úr pappír. Þá voru tveir hópar að semja sitt hvora söguna út frá sögunni af Græna kettinum.
Skólarnir í hinum löndunum hafa lesið söguna um Greppikló á sínu tungumáli og nemendur hafa búið til myndir og sent á milli skólanna. Þá bjuggu þau til Greppiklóna sjálfa og sendu líkamsparta hennar á milli. „Til dæmis þá sendum við hausinn til Slóveníu og hendurnar til Frakklands. Svo sendu aðrir skólar parta til okkar og við settum saman mjög fjölþjóðlega Greppikló sem var lengi uppi á vegg hjá okkur,“ segir Sigurbjört.
Læsisverkefnin hafa mikið verið unnin úti við og þá meðal annars með því að leita að dýrum í tengslum við sögurnar. Lýðræði skipar stóran sess í læsisverkefnum á Holti og segir Sigurbjört eitt af markmiðunum að hvetja börn til að vera óhrædd við að segja sína skoðun. „Ef þau eru ekki öll sammála þá er kosið. Þannig leiða börnin verkefnin áfram. Við kennararnir búum til grind fyrir hvert verkefni en vitum svo ekkert hvar það mun enda. Börnin sjá og lesa heiminn oft á annan hátt en við, hin fullorðnu, og það er svo gott. Maður hefur gott af því að sjá heiminn með þeirra augum.“
[email protected]
Kristín Helgadóttir, leikskólastjóri á Holti og Sigurbjört Kristjánsdóttir, verkefnastjóri. Kristín heldur á verðlaununum frá Rannís og Sigurbjört á verðlaununum sem leikskólinn fékk á dögunum frá Evrópusambandinu. VF-myndir/dagnyhulda
Fjölþjóðleg Greppikló uppi á vegg á Leikskólanum Holti.
Í vetur er læsisverkefni á Holti þar sem unnið er með söguna af Græna kettinum eftir Önnu Sofiu Wahlström, deildarstjóra á Holti.