Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kenna gæðameðferð á matvælum
Klemenz Sæmundsson, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands fremst til vinstri með starfsfólki Bláa lónsins, þar sem hann hélt námskeið á dögunum. VF-mynd: Hilmar Bragi
Laugardagur 14. nóvember 2015 kl. 04:00

Kenna gæðameðferð á matvælum

– Fisktækniskóli Íslands með námskeið um meðferð matvæla í Bláa lóninu

Fisktækniskóli Íslands hélt á dögunum námskeið í samstarfi við Bláa lónið fyrir starfsfólk í eldhúsi. Á námskeiðinu var farið yfir meðferð matvæla, hreinlæti, hitastig og þá var tekið fyrir gæðastjórnunarkerfi. Fisktækniskólinn mun áfram vera með námskeið bæði fyrir fastráðna starfsmenn og einnig verður skólinn með nýliðanámskeið fyrir Bláa lónið. Klemenz Sæmundsson heldur utan um þessi námskeið en hann er verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands. Klemenz starfaði áður við veitingarekstur IGS á Keflavíkurflugvelli og var forstöðumaður í veitingadeild IGS en þegar breytingar urðu þar fyrr á þessu ári hóf hann störf hjá Fisktækniskóla Íslands. Þar mun hann halda utan um gæðastjórnunar- og fiskeldisnám skólans en hann er matvæla- og næringarfræðingur að mennt.  Einnig er hann í almennri kennslu og er m.a. að kenna rekstrarhagfræði þessa önnina.

Fisktækniskóli Íslands er framhaldsskóli sem býður upp á nám í fisktækni sem er tveggja ára nám á framhaldsskólastigi. Þá er skólinn einnig með þriðja árs nám á þremur brautum, þ.e. fiskeldi sem byrjar í janúar næstkomandi, gæðastjórnunarnám og svo Marel-nám í samstarfi við Marel en búnaður frá því fyrirtæki er orðinn mjög tæknivæddur og krefst góðrar þekkingar þeirra sem nota þann búnað hvort sem er í fiskvinnslustöðvum í landi eða um borð í fiskiskipum.

Til að geta hafið nám í Marel  vinnslutæknir þarfa að hafa lokið námi í Fisktækni eða sambærilegu námi. Mat á reynslu og þekkingu úr sjávarútvegi getur einnig gilt sem inntökuskilyrði eins og inn á hinar brautirnar (raunfærnimat).

Fisktækniskóli Íslands býður einnig upp á vélstjórnarnám, flökunarnámskeið og einnig nýliðanámskeið fyrir fiskvinnslur út um allt land. Einnig kenna starfsmenn skólans á  kjarabundnum fiskvinnslunámskeiðum ásamt því að búa til námskeið eftir þörfum atvinnulífsins hverju sinni.
„Við erum einnig mikið í að raunfærnimeta fólk í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og aðrar símenntunarstöðvar. Það er ótrúlega margir sem koma til okkar sem hafa verið á sjó í 20-30 ár og eru að vakna upp við það að tímarnir eru að breytast og það þarf aukna menntun, alveg sama hvar það er. Við erum að raunfærnimeta þessa einstaklinga en þeir hafa m.a. áhuga á að koma í gæðastjórnunarnám hjá okkur, í Marel-nám eða fiskeldið,“ segir Klemenz.

- Hvernig sækir fólk þetta nám hjá skólanum?
„Við erum bæði með staðnám og dreifnám. Við leggjum mikið upp úr því að þetta sé nám með vinnu. Ef nemendur komast ekki í tíma hjá okkur þá taka þeir námið í dreifnámi, mæta þegar þeir mögulega geta og nota netið (moodle). Nemendur geta tekið hluta af náminu eða jafnvel allt í dreifnámi. Námið hjá okkur er einstaklingsmiðað þannig að nemendur geta ráðið sínum hraða, sérstaklega í grunnnáminu á fyrstu tveimur árunum. Í þriðja árs náminu þá byrja allir saman og útskrifast saman“.

Nemendur Fisktækniskóla Íslands koma frá öllu landinu og nýlega byrjuðu þrír nemendur sem stunda námið frá Noregi. Þá segir Klemenz að nemendurnir séu á öllum aldri. Eitthvað er um eldri nemendur sem hafa fengið metið nám í „skóla lífsins“ á móts við námskrá skólans í gegnum raunfærnimat.
„Hingað koma margir sem telja sig ekki kunna neitt en vita hins vegar mjög mikið þegar á hólminn er komið og hafa aflað gríðarlegrar þekkingar í gegnum tíðina. Það er gaman að taka þátt í því þegar menn ákveða að fara aftur í skóla, fólk sem hefur jafnvel upplifað það að skóli væri ekki eitthvað fyrir það. Flestir finna styrkleika sína og ákveða að nú sé tíminn að bæta við sig menntun,“ segir Klemenz.
Klemenz segir Fisktækniskóla Íslands vera í góðu samstarfi við fiskvinnslufyrirtæki um land allt. Skólinn heldur reglulega námskeið fyrir nýja starfsmenn í fiskvinnslu og einnig fyrir starfsfólk með meiri reynslu.

Með námskeiðshaldi fyrir Bláa lónið má segja að Fisktækniskóli Íslands sé að fara út fyrir rammann en Klemenz segir engan mun á því hvort fólk sé að vinna með kjöt eða fisk. Það gildi sömu reglur um meðferð á öllum matvælum. Skólinn ætlar í framhaldi af námskeiðinu í Bláa lóninu að bjóða öðrum fyrirtækjum í matvælavinnslu upp á samskonar námskeið.

„Það skiptir engu máli hvort þú ert í fiski, kjöti eða veitingarekstri. Það gilda sömu reglur og lögmál, þar sem hreinlæti og hitastig skipta gríðarlega miklu máli,“ segir Klemenz Sæmundsson, verkefnastjóri hjá Fisktækniskóla Íslands að endingu.

Fisktækniskóli Íslands er nú að taka við umsóknum fyrir næstu önn, bæði grunnnámið og gæðastjórnun, fiskeldi og Mareltækni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024