Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 19. september 2001 kl. 15:19

Kemur Keikó til Keflavíkur?

Hvalaskoðunarferðir eru vaxandi atvinnugrein á Suðurnesjum og bæjaryfirvöld hafa lýst því yfir að þau hefður áhuga á að búa Keikó framtíðarheimili í Reykjanesbæ, á sama stað og hrefnan strandaði neðan við Vatnsnesveg. Engar ákvarðanir hafa verið teknar að svo stöddu en hugsast getur að farið verði út í viðræður við umsjónarmenn Keikós á næstunni.
Að sögn Ellerts Eiríkssonar bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hafa fulltrúar frá Ocean Futures, þ.e. samtökunum sem hafa umsjón með Keikó, kynnt sér aðstæður í Keflavík, en einnig kemur til greina að hafa Keikó á Húsavík eða á Írlandi.
„Ef Keikó kemur þá þarf að byggja grjótgarð hér fyrir neðan gömlu sundhöllina sem er áætlað að muni kosta um 200 milljónir króna. Einnig þarf að búa til aðstöðu, göngustíga og fleira, þannig að fólk eigi gott með að koma og skoða gripinn. Hann yrði frjáls ferða sinna og fengi að synda inn og út úr kvínni eins og hann vill. Þetta yrði dýr framkvæmd og bærinn myndi ekki kosta hana heldur yrði fjármögnun á vegum Ocean Future samtakanna. Hugsunin er að Keikó verði sjálfbær en hann þarf að draga að um 100 þúsund ferðamenn á ári til að verða matvinnungur. Hugmyndin er líka að gerður verði út sérstakur hvalaskoðunarbátur sem Keikó myndi elta, þannig að fólk gæti séð hann leika listir sínar á Faxaflóa. Þetta er allt á skoðunarstigi eins og er, en möguleikinn er til staðar“, segir Ellert.
Helga Ingimundardóttir hjá Ferðaþjónustu Suðurnesja, sem rekur m.a. hvalaskoðunarbátinn Moby Dick, sagði að koma Keikó myndi breyta miklu fyrir byggðarlagið og uppbyggingu ferðamannaþjónustu á svæðinu.
„Fólk myndi koma á Reykjanesið eingöngu til að sjá Keikó, það er engin spurning. En ef hann kemur þá þurfum við að markaðssetja hann mjög vel og ná samstarfi við stóra aðila“, segir Helga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024