Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kemur fólki í form með nýju lyftingakerfi
Fimmtudagur 16. september 2004 kl. 11:45

Kemur fólki í form með nýju lyftingakerfi

Ungur Njarðvíkingur, Örn Steinar Marinósson, hefur hannað nýtt lyftingakerfi sem hann mun kenna í Perlunni í vetur. Kerfið kallar Örn Shape up/Í form og telur mikinn áhuga fyrir slíku og möguleikana mikla.

Um er að ræða hópatíma í sal þar sem þátttakendur vinna tveir og tveir saman, en Örn segir slíkt fyrirkomulag hafa reynst vel. „Ég hef gaman að því sjálfur að lyfta í hóp með góða tónlist. Þannig myndast betri samvinna og þetta hvetur fólk líka til að mæta því það vill ekki bregðast félaganum.“

Æfingarnar í tímunum verða með lyftingarstöngum, en einnig verður mikið um sjálfbærar æfingar, en þar er átt við æfingar sem fólk gerir með sínum eigin líkamsþunga, ss. armbeygjur og upphífingar. Slíkar æfingar eru mun mýkri á líkamann og hægt er að laga þær að þörfum hvers og eins óháð aldri eða líkamlegu formi.

„Þetta er algjör nýjung í líkamsrækt og hugmynd sem ég hef lengi verið að spá í,“ segir Örn, en hann hefur starfað við lyftingarþjálfun í mörg ár. „Ég ákvað loks að gera alvöru úr þessu og hef verið að leyfa fólki að prófa og allir eru rosalega hrifnir af þessu.“
Kerfið er sérstaklega heppilegt fyrir fólk sem finnur sig ekki í venjulegum hóptímum. Með þessu geta þátttakendur brennt fitu og styrkt sig og svo bæta þau þolið með því að hlaupa eða ganga samhliða æfingunum.

„Þetta er ekki þessi dæmigerði átakshópur,“ segir Örn að lokum. „Kerfið miðar að því að fólk taki til í mataræði sínu og hreyfingu til langtíma. Þetta er engin skyndilausn því að ég trúi því að góðir hlutir gerist hægt!“

Námskeiðið hefst í Perlunni á þriðjudag og verður þrisvar sinnum í viku.
VF-mynd/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024