Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kemur allt með kalda vatninu
Fimmtudagur 22. febrúar 2024 kl. 06:00

Kemur allt með kalda vatninu

Unnið hefur verið af kappi síðustu daga við að tengja nýja kaldavatnslögn til Grindavíkur. Lögnin liggur í hrauninu sem rann yfir Grindavíkurveg þann 14. janúar. Gamla lögnin gaf sig í kjölfar eldgossins í janúar og hefur Grindavíkurbær því verið án vatns.

Vonir standa til að kalt vatn muni renna að nýju til Grindavíkur á fimmtudag en unnið hefur verið að viðgerð á vatnslögninni sem skemmdist í kjölfar þess að hraun rann yfir lögnina. VF/Hilmar Bragi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Byrjað verður að hleypa köldu vatni á hafnarsvæðið í Grindavík í áföngum á fimmtudag í þessari viku. Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar, sagði á íbúafundi með Grindvíkingum á mánudagskvöld að vatninu verði hleypt á bæinn í ákveðnum skrefum. Það sé m.a. vegna þess að ekkert vatn hafi verið um tíma á dreifikerfinu og ekki sé vitað um ástand þess.

Í framhaldi af því að kalt vatn kemst á dreifikerfið mun ástand á fráveitukerfinu koma í ljós. Grindvíkingum hefur verið ráðið frá því að nota salerni vegna vatnsleysis. Fram kom í máli Atla Geirs á íbúafundinum að hann væri bjartsýnn með að fráveitan í vesturhluta bæjarins og við hafnarsvæðið væri í lagi en hafði meiri áhyggjur af austari hluta bæjarins, þar sem nýr sigdalur myndaðist í eldsumbrotunum 14. janúar. Það má því segja að þetta komi allt með kalda vatninu.