Keilisnemar að gera góða hluti í háskólunum
Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, er eitt af óskabörnum okkar Suðurnesjamanna sem urðu til við brotthvarf Varnarliðsins. Keilir hefur starfað í næstum fjögur ár. Á þessum fjórum árum tæpum hafa verið útskrifaðir hátt í 600 nemendur. Um helmingur þessara nemenda eru af Háskólabrú og langflestir þeirra eru nú í háskólanámi.
„Við höfum verið að fá vitnisburð um það úr háskólunum að í sumum fögum er okkar fólk jafnvel að dúxa. Við fáum mjög jákvæð skilaboð frá nemendunum sjálfum og þeir telja sig vera vel undirbúna. Það er það sem skiptir okkur mestu máli,“ segir skólamaðurinn Hjálmar Árnason, sem veitir Keili forstöðu. Hann hefur hins vegar af því áhyggjur að Keilir sé ekki ennþá kominn inn í kerfið, eins og það er orðað.
„Það gengur mjög seint að koma nýjum skóla inn í kerfið. Við fáum mjög jákvæða hvatningu og alveg þverpólitíska en finnst vera grátlegt að fá ekki það sama og aðrir. Við viljum ekki meira en aðrir, bara sama og aðrir. Allir taka vel í það, segja að Keilir verði að lifa, en það gengur svo ótrúlega hægt og skapar ákveðna erfiðleika.“.
Keilir fái þá viðurkenningu sem hann þarf
Hjálmar segir það verða baráttu Keilis á næstu vikum að fá þá viðurkenningu sem hann þarf. „Við höfum ekki ennþá afgreitt rekstraráætlun ársins, af því að við trúum því að hin jákvæðu orð muni verða að krónum til að Keilir geti haldið áfram að sækja fram og hækkað menntastigið hér á Suðurnesjum“.
Þrátt fyrir að Keilir sé ekki að fá fé til jafns við aðra skóla er unnið af krafti við þróun námsins og svo hefur verið síðustu ár.
„Núna má segja að við séum í fjórum meginstoðum:Flugakademían, Heilsuskólinn, Háskólabrúin og svo Orku- og tækniskólinn. Það sem við erum að gera núna er að styrkja þessar fjórar stoðir sem þegar eru komnar. Við þurfum einnig að vera stöðugt á vaktinni með að vera tilbúin sækja fram. Það er rétt að minna á það að Keilir var stofnaður til að fylla upp í göt í menntakerfinu og nóg er af þeim. Þess vegna erum við að fara af stað með og erum að þróa nýjar námsbrautir sem við viljum halda opnum og fara af stað með þegar færi gefst“ segir Hjálmar og bætir við: „Hvað hefur ekki verið talað lengi um samstarf skóla og atvinnulífs? Við viljum vinna á þeim nótum og eiga náið samstarf við atvinnulífið. Þannig styrkjum við innviði samfélagsins“.
Samstarf við einn stærsta flugskóla í heimi
- Nýverið fékk Keilir styrk úr Vaxtarsamningi Suðurnesja til að vinna að Flugvirkjabúðum. Hvað getur þú sagt mér um það verkefni?
„Á næstu 5 árum mun vanta um 15.000 flugvirkja í heiminum og á næstu 10 árum 50.000 flugvirkja og það er ekki verið að kenna flugvirkjun á mjög mörgum stöðum. Við erum nú komin í mjög náið samstarf við breskan flugskóla sem er einn sá stærsti í heimi með útstöðvar í tæplega 40 löndum. Þessi skóli ætlar að votta fyrir okkur nám og senda hingað fullt af nemendum í flugvirkjun, bæði í grunnnám og einnig í svokölluð týpu-réttindi. Það sem gerir það eftirsóknarvert fyrir þá að senda hingað nemendur í samstarfi við okkur og ITS er staðsetningin, hnattræn lega okkar, en einnig sú aðstaða sem við getum boðið hérna í gistingu“.
Ennþá er verið að vinna í skipulagningu námsins að sögn Hjálmars. Líklega verður gert ráð fyrir að íslenskir nemendur hafi lokið sem nemur grunndeild málmiðnar til að fá inni í náminu.
„Við ætlum hinu almenna skólakerfi að sinna undirstöðuatriðum í stærðfræði, ensku og öðrum tungumálum og eins undirstöðu í því verklega, eins og suðunámskeiðum, málmsmíði og þ.h. Sérgreinar flugvirkjunar verði kenndar í bóklegu námi hjá Keili og það verklega á verkstæði, bæði hjá ITS, Keili og öðrum flugrekendum“. Hjálmar segir rétt að undirstrika að verið sé að vinna í þessu og verkefnið er ekki komið á koppinn. „Við erum ekki byrjuð að innrita og við látum rækilega vita af okkur þegar það verður“.
Nám í fíkniráðgjöf
Annað dæmi um nýtt nám sem verður hjá Keili sé nám í fíkniráðgjöf. „Það verður bæði diploma-nám og alveg upp í BS-gráðu sem við höfum verið að vinna með þremur deildum Háskóla Íslands. Þeir telja mikla þörf á að fá undirstöðumenntun á þessu sviði og við erum tilbúin til að sinna því þegar fjárveitingar fást til þess. Þá munum við auglýsa námið og fara af stað“.
Fatahönnun og saumaskapur að danskri fyrirmynd
Hjá Keili stefnir í mjög spennandi verkefni, sem er samstarf Keilis við Fatahönnunarskóla Íslands. Fatahönnun og saumaskapur er fjórða stærsta útflutningsgrein Dana og byggir mikið til á skólum og menntun á þessu sviði.
„Sú sem að við erum í samstarfi við um þetta fór sjálf í gegnum nám eins og þetta sem er tveggja ára nám á framhaldsskólastigi. Þar er áhersla lögð á markaðsmál, á vöruhönnun og svo saumaskapinn sjálfan. Við gerum ráð fyrir því að taka inn allt að 30 nemendur á ári, sem þýðir að þegar allt er komið á fullt að hér verið 60 nemendur í faginu sem munu enda veturinn með tískusýningu. Aðalhugsunin er svo sú að í framhaldinu, í stað þess að hver hverfi til síns heima, að þá hjálpum við þeim að stofna sín eigin félög sem þó hefðu sameiginlega aðstöðu á saumaverkstæði hér á Ásbrú, væntanlega í Eldey. Þetta er nám á framhaldsskólastigi og má túlka sem iðn- og hönnunarskóla að danskri fyrirmynd. Þetta er hins vegar ekki lögvernduð iðngrein. Það er mikill áhugi fyrir þessu námi sem er í anda Ásbrúar. Það er einnig gott dæmi um það hvernig námið getur leitt af sér beina framleiðslu og sölu“.
- Þið auglýstuð nám sem þið kölluðuð TROMPIÐ. Hvað varð um það?
„Það er kreppa og skólagjöldin eru dýr. Við fengum ekki nægan fjölda nemenda núna en vonumst til með að geta farið af stað með námið í haust. Þegar TROMPIÐ fer af stað verður ekki aftur snúið því það verður svo mikið af lifandi og skemmtilegum verkefnum sem eiga eftir að vekja mikla athygli“.
Metanstöðin að verða klár
Af öðru starfi hjá Keili, þá er vonast til að generalprufan á metanstöð Keilis verði nú í byrjun mars og í framhaldi af því verði hún opnuð. „Við höfum ekki viljað opna hana fyrr en allt væri komið á hreint, að öll tækni virki og allt kerfið verið orðið slípað. Það hefur tekið lengri tíma en við ætluðum. Fjölmargir hér á svæðinu hafa sýnt metaninu áhuga. Fleiri en einn aðili ætla að setja upp starfsstöðvar til að breyta bílum til að brenna metani í stað bensíns og Keilir ætlar að hafa tekjur af stöðinni til að efla skólann. Jafnframt er stöðinni ætlað að þjálfa nemendur í að vinna með þetta eldsneyti. Áhuginn er ótrúlega mikill á Suðurnesjum,“ segir Hjálmar.
Í anda Amazing Race
- Þið eruð einnig að fara af stað með skemmtilegt verkefni í anda Amazing Race.
„Við erum í samstarfi við Fisktækniskólann að skoða raungreinabúðir. Raungreinabúðirnar eru aðstaða fyrir nemendur úr grunn-, framhalds- eða þess vegna háskólanum. Þarna erum við að horfa bæði á innlendan og erlendan markað þar sem nemendur geta komið hingað og unnið létt og skemmtileg verkefni á sviði raungreina. Þeir gætu t.a.m. sett saman lítinn vetnismódelbíl eða sólarrafhlöðubíl og annað í þeim dúr og til þess að gera þetta að leik búum við til hópa sem fara í keppni ekki ósvipuð Amazing Race, þar sem hópar keppa í að fara yfir einstakar starfsstöðvar og leysa verkefni á hverri starfsstöð. Þetta getum við kallað raungreinahlaup. Fyrstu hóparnir komu í lok febrúar. Hingað koma Danir í mars og apríl og í framhaldinu munum við bjóða þetta innlendum nemendum“.
Ráðstefna um flug og snjó
- Þið hélduð ráðstefnu um eldgos og flugsamgöngur á síðasta ári með góðum árangri. Í vetur hafa verið fréttir af vandræðum á flugvöllum vegna snjóa. Er það efni í nýja ráðstefnu?
„Jón Hjaltalín Magnússon, sá snillingur, er sambærilegur við Albert Albertsson hjá Hitaveitunni, endalaus uppspretta hugmynda, átti hugmyndina að gosráðstefnunni. Hann fékk þá hugmynd að boða til nýrrar ráðstefnu í maí á þessu ári um flug og snjó. Undirtektir hafa verið mjög góðar og vonandi verður af ráðstefnunni“.
Ráðstefnuhald er ein af stoðum Keilis. Heilsuskóli Keilis hefur verið duglegur að halda ráðstefnur fyrir einkaþjálfara. Nýlega voru ráðstefnur annars vegar um einkaþjálfun og eldri borgara og hins vegar ráðstefna fyrir einkaþjálfara sem vinna með barnshafandi konum. Þessar ráðstefnur voru vel sóttar af einkaþjálfurum sem eru að sérhæfa sig á þessu sviði. Um helgina 24.-26. febrúar voru hér um 80 toppþjálfarar í þjálfunarbúðum þar sem fimm bandarískir sérfræðingar á sínu sviði leiðbeindu. Heilsuskólinn, undir forystu Gunnhildar Vilbergsdóttur, hefur verið öflugur við slíkt námskeiðahald.
Handboltabúðir á Ásbrú
Keilir er einnig að kanna möguleika á að halda á Suðurnesjum æfingar og æfingamót fyrir B- og C-landslið í handbolta. Þetta eru þau lið sem ekki komast í þessi alvöru mót. Málið hefur verið rætt við Færeyinga, Skota, Breta, Lúxemborgara og fleiri aðila og þar virðist vera töluverður áhugi. Þetta verkefni er hugsað fyrir öll íþróttahúsin á Suðurnesjum. „Með þessu verkefni erum við að nýta aðstöðuna á svæðinu og þau svið sem við erum góð í,“ segir Hjálmar Árnason hjá Keili í samtali við Víkurfréttir og bætir við:
„Tækifærin blasa við og aðstaðan á Ásbrú er engu lík. Hún á eftir að gegna mikilvægu hlutverki í endurreisn samfélagsins hér á Suðurnesjum“.