Keilir: Vilja bjóða upp á nám í heilbrigðis- og íþróttafræðum
Uppbyggingunni í kringum Keili og þekkingarmiðstöðina á Vallarheiði ætlar seint að linna og eru sífellt að koma fram nýjar og ferskar hugmyndir sem verða senn að veruleika.
Ein sú nýjasta varðar nám á heilbrigðissviði, eða nánar til tekið í hjúkrunarfræði og námsbrú fyrir sjúkraliða, sem Íþrótta-, heilsu- og heilbrigðisklasi Keilis vinnur nú að og er stefnt að því að hefja kennslu strax næsta haust. Námið verður væntanlega vottað af Háskóla Íslands, sem er stærsti hluthafi Keilis, en þar á milli hefur verið gott samstarf að sögn Stefaníu Katrínu Karlsdóttur, framkvæmdastjóra íþrótta-, heilsu- og heilbrigðisklasa. Er nú verið að vinna að frekari útfærslu á skipulagi og vottun náms hjá Keili.
Stefanía tók við starfi framkvæmdastjóra um síðustu áramót og segir hún í samtali við Víkurfréttir að möguleikarnir fyrir nám á heilbrigðissviðinu séu miklir hér á Suðurnesjum. „Staðan er þannig að margar kannanir sýna að það er mikill skortur á mannafla á þessu sviði. Það er talið að um 700 hjúkrunarfræðinga vanti hér á landi og annað eins af sjúkraliðum þannig að við erum að tala um mikla eftirspurn sem núverandi menntakerfi annar ekki.“ Eitt lykilatriðið á bak við tækifærin á heilbrigðissviðinu er aðstaðan til verklegrar kennslu og starfsþjálfunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem Stefanía segir að hafi gríðarlega góða innviði til að taka á móti nemum. Hjá stjórnendum HSS hafi þau í Keili einnig mætt miklum velvilja við undirbúninginn og augljóst sé að þar sé mikil geta og framsækni.
„Þetta er allt á vinnslustigi hjá okkur eins og er en við stefnum engu að síður á að hefja kennslu nú í haust. Við erum nú að skipuleggja námsbrautirnar, bæði framhaldsskólastigið og háskólastigið, en við erum líka að skipuleggja námsbrú fyrir starfandi sjúkraliða sem vilja halda áfram upp í háskólanám.“ Að sjálfsögðu er líka beðið eftir samþykki menntamálaráðuneytisins, en Stefanía segir að eðlilegt sé að ríkið komi að náminu með fjárframlögum þegar horft er til atburða á Suðurnesjum síðustu misserin. „Hér misstu hundruð manna atvinnuna þegar herinn fór, en síðan þá hefur ríkið tekið inn gríðarlegar fjárhæðir af svæðinu í sölu á eignum. Fyrir hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja fékk ríkið á áttunda milljarð króna og enn meira fyrir eignirnar sem seldar voru á Vallarheiði þannig að okkur finnst eðlilegt að í staðinn verði komið til móts við svæðið í þessu samfélagsmáli og við höfum fengið góð viðbrögð hingað til.“ Ef allt gengur að óskum segir Stefanía að í fyrstu sé stefnt að því að bjóða upp á nám fyrir sjúkraliða til undirbúnings fyrir háskólanám og er það á framhaldsskólastigi. Einnig er markmiðið að bjóða upp á fyrstu tvö árin í hjúkrunarfræðinámi. „Það er líka okkar hugmynd að bjóða upp á nám með öðrum áherslum en annarsstaðar og þá jafnvel með meiri sérhæfingu í huga.“ Stefanía leggur einnig áherslu á að efla íþróttafræðina og segir slíkt nám eiga mikla framtíð fyrir sér hér á Suðurnesjum.
Reynsla Stefaníu af starfinu hér í Reykjanesbæ hefur komið henni skemmtilega á óvart þar sem hér er gengið hratt og örugglega til allra verka. Þá sé kraftur og stuðningur bæjaryfirvalda góður og mikilvægur. Hún hefur unnið náið með Hjálmari Árnasyni og Runólfi Ágústssyni sem hafa báðir mikla reynslu af skólamálum líkt og Stefanía, sem var rektor Tækniháskóla Íslands á árunum 2002 til 2005.
Tækifærin í menntun liggja að hennar sögn á mörgum sviðum, t.a.m. varðandi orkufræði, frumkvöðlastarfsemi og við leikskólakennaramenntun sem er verið að þróa í samvinnu við Margréti Pálu hjá Hjallastefnunni, svo eitthvað sé nefnt.
„Þekkingarstarfsemi er til mikilla bóta fyrir samfélagið allt á Suðurnesjum,“ segir Stefanía að lokum. „Aukin þekking smitast út í atvinnulífið sem smitar svo enn frekar inn í samfélagið og eflir það. Hér er verið að vinna gott starf og öflugt og það má segja að það sem einkennir það er að hér eru engin vandamál. Bara verkefni og tækifæri til framtíðar.“
VF-mynd/Þorgils