Fréttir

Keilir útskrifar 126 nemendur og fagnar stórafmæli á árinu
Þriðjudagur 17. janúar 2017 kl. 09:16

Keilir útskrifar 126 nemendur og fagnar stórafmæli á árinu

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 126 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 13. janúar. Við athöfnina voru útskrifaðir nemendur Háskólabrúar, atvinnuflugmannsnemendur og flugvirkjanemar AST og Keilis, auk nemenda úr ÍAK einkaþjálfaranámi.

Keilir hóf starfsemi 4. maí 2007 og fagnar því tíu ára afmæli á þessu ári, en samtals hafa 2.799 aðilar útskrifast úr deildum skólans á þessum tíma. Í tilefni af afmælisárinu hefur skólinn safnað sögum og viðtölum við hluta þeirra nemenda sem hafa stundað nám í Keili og birt á heimasíðunni www.keilir.net/10ara. Fram að afmæli skólans í maí munu vikulega bætast við sögur og kynningar á nemendum á þessari vefsíðu.

Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 75 nemendur. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp. Dúx var Olga Kristín Jóhannesdóttir með 9,71 í meðaleinkunn, en það er hæsta meðaleinkunn af Háskólabrú frá upphafi. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Gunnlaugur Máni Hrólfsson fékk viðurkenningu frá HS orku fyrir framúrskarandi námsárangur af verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar með 9,06 í meðaleinkunn. Kristbjörg Halla Magnúsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.

Með útskriftinni hafa samtals 1.496 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis.

29 atvinnuflugmenn og 19 flugvirkjar útskrifuðust frá Flugakademíu Keilis og er þetta einn fjölmennasti útskriftarhópur atvinnuflugnema frá upphafi. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Snorra Pál Snorrasyni skólastjóra Flugakademíunnar. Marie Laure Jeanne E. Parsy fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,54 í meðaleinkunn. Fékk hún gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Nú hafa 157 atvinnuflugmenn útskrifast frá Keili frá upphafi skólans.

Þá útskrifaði Flugakademían í annað sinn flugvirkjanema frá Keili, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Björn Pálsson fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í flugvirkjanáminu með 9,4 í meðaleinkunn. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bókagjöf frá Isavia. Með útskriftinni hafa 41 nemandi lokið flugvirkjanámi við skólann. Ásbjörn Halldór Hauksson flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.

Að auki útskrifuðust þrír nemendur úr ÍAK einkaþjálfaranámi Íþróttaakademíu Keilis.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024