Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Keilir tekur í notkun fullkominn flughermi
    Úr flughermi Flugakademíu Keilis.
  • Keilir tekur í notkun fullkominn flughermi
Fimmtudagur 5. febrúar 2015 kl. 09:44

Keilir tekur í notkun fullkominn flughermi

Flugakademía Keilis hefur tekið í notkun fullkominn flughermi að gerðinni Redbird MCX. Um er að ræða hreyfanlegan hátækni flughermi sem býður uppá fjölbreytta notkunarmöguleika í þjálfun flugnemenda skólans. Bætist hann við ört stækkandi þjálfunarbúnað fyrir nemendur í einka- og atvinnuflugmannsnámi en hátt í hundrað einstaklingar stunda nú flugnám hjá Keili. Auk þess hefur skólinn um að ráða sjö kennsluvélar að gerðinni Diamond, þar af eina tveggja hreyfla DA-42 sem er fullkomnasta kennsluflugvél á Íslandi.

Fulltrúar Evrópsku Flugöryggisstofnunarinnar (EASA) komu til landsins á dögunum og tóku út flugherminn, en það þýðir að Flugakademía Keilis er nú samþykktur rekstraraðili flugherma almennt og að Redbird MCX flughermirinn er hæfur til þjálfunar í samræmi við tilskyldar kröfur og reglugerðir stofnunarinnar.

Flughermir Keilis mun nýtast til æfinga allt frá grunnstigum þjálfunar, svo sem hliðarlendingum, að fjölhreyfla og fjöláhafna flugvélum. Í flugherminum umlykur tækjabúnaður og skjámynd flugmanninn þannig að hann hefur öll stjórtæki flugvélar ásamt 180° sjóndeildarhring út fyrir flugvélina. Hreyfigeta tækisins gerir upplifunina raunverulegri og þægilegri fyrir bæði kennara og nemanda. Hægt er að skipta út stjórn- og mælitækjum og þannig líkt eftir eins- og tveggja hreyfla flugflota Flugakademíu Keilis frá Diamond flugvélaframleiðandanum. Þaning er hægt að líkja eftir allt frá sígildum „klukkumælum“ yfir í háþróaða rafræna samþætta mæla (electronic flight instrument systems).

Nánari upplýsingar um Flugakademíu Keilis og flugvélakost skólans má nálgast á: www.flugakademia.is



Frá undirritun samnings við EASA. Á myndinni eru Rúnar Árnason (forstöðumaður Flugakademíu Keilis), Hjálmar Árnason (framkvæmdastjóri Keilis), Friðrik Ólafsson (yfirkennari bóklegra greina), Capt. Iain McClelland og Kim Jones (fulltrúar EASA), Snorri Páll Snorrason (skólastjóri) og Björn Þverdal Kristjánsson (gæðastjóri).
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024