Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keilir leiðandi aðili í notkun iPad í kennslu
Mánudagur 16. janúar 2012 kl. 12:08

Keilir leiðandi aðili í notkun iPad í kennslu

Flugakademía Keilis hefur nýtt rafrænar kennslubækur í iPad spjaldtölvum síðan haustið 2011. Nokkur umræða hefur verið undanfarið um skóla sem eru að taka spjaldtölvur í sína þjónustu og skipta þeim út fyrir hefðbundnar kennslubækur. Þannig hyggst Vogaskóli í Reykjavík hafa allar kennslubækur fyrir heilan árgang nemenda geymdar í Kindle.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kostir þess að nýta slíkan búnað fyrir rafrænar kennslubækur er margvíslegur, til að mynda léttir þetta fyrirkomulag þungan burð skólabóka. Þá býður Kindle upp á að nemendur geta stækkað letur textans að þörfum, nokkuð sem ekki verður gert með hefðbundnum kennslubókum. Fleiri aðilar hafa séð notkunarmöguleika spjaldtölva, en Margrét Pála Ólafsdóttir hefur tilkynnt að iPad spjaldtölvur verði í framtíðinni nýttar í grunnskólum Hjallastefnunnar. Frá þessu er greint á vefsíðu Keilis, keilir.net.

Síðastliðið haust tóku kennarar í Flugakademíu Keilis af skarið og afhentu nemendum í bóklegu námi til atvinnuflugs iPad á fyrsta skóladegi með kennslugögnum innanborðs. Verður þessi leið þróuð í vetur og býr Keilir sig undir að stíga alvöru skref inn á þessar brautir.

„Við sjáum fyrir okkur að innan skamms verði allir nemendur Keilis með iPad eða sambærilegar spjaldtölvur. Við teljum að með því móti megi gera kennslu til muna skilvirkari og mæta þörfum hvers og eins mun betur en í hefðbundnu formi. Spjaldtölvur opna möguleika fyrir markvissa notkun myndbanda, lifandi fyrirlestra, gagnvirks sambands nemanda og kennara, o.s.frv. Við teljum að skóli framtíðar hljóti að nýta sér þessa tækni til hagsbóta fyrir nemendur,“ segir á vef Keilis.

Fróðlegt verður að fylgjast með nýtingu rafrænna kennslubóka í framtíðinni og vill Keilir vera leiðandi aðili í þeirri þróun.