Keilir kaupir flota kennsluflugvéla
-bylting í flugkennslu hérlendis með umhverfisvænum hátækniflugvélum.
Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis og Christian Dries, forstjóri Diamond Aircraft Industries, skrifuðu undir kaupsamning um 5 nýjar kennsluvélar fyrir Flugakademíu Keilis í Vínarborg í gær. Kaupverð vélanna, tæpar 200 milljónir króna, er að mestu fjármagnað af seljanda ásamt Bank Austria. Möguleiki er á að bæta öðrum 5 vélum við samninginn árið 2009.
Diamond flugvélar, sem framleiddar eru í Austurríki og Kanada, eru á meðal fullkomnustu og öruggustu kennsluvéla í heimi. Þær eru m.a. notaðar af bandaríska flughernum til grunnþjálfunar flugmanna.
Um er að ræða tvær DA20 tveggja manna vélar, tvær DA40 fjögurra manna vélar og eina DA42 tveggja hreyfla fjögurra manna vél með afísingar- og blindflugsbúnaði. Vélarnar eru allar búnar stýripinna og stærri vélarnar eru jafnframt búnar stafrænum stjórntækum og mælaborði. Diamond vélar eru knúnar umhverfisvænum og sparneytnum díselhreyflum.
Fystu vélarnar koma til landsins eftir mánuð en þær síðustu í janúar næstkomandi. Bóklegt einkaflugmannasnám hefst hjá Flugakademíu Keilis nú um mánaðamótin en Flugakademían er hluti af Samgöngu- og öryggisskóla Keilis, sem Hjálmar Árnason stýrir.
„Þetta er bylting í flugkennslu á Íslandi“, segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Samgöngu- og öryggisskóla Keilis. „Í fyrsta sinn er boðið upp á nútímalegar kennsluvélar í flugnámi hérlendis. Sá tími að kennsla fari fram á yfir 20 ára gömlum og úreltum vélum er liðinn. Þá er það frábært að geta boðið upp á flugnám á Keflavíkurflugvelli, stærsta alþjóðaflugvelli landsins, þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar. Þetta er svo spennandi að ég ætla sjálfur að skrá mig í námið og byrja að læra að fljúga. Ég held að margir, eins og ég, ali þann draum með sér og nú er bara að láta verða af því!“
„ Vélarnar eru öruggar, hagkvæmar og umhverfisvænar“ segir Kári Kárason, skólastjóri Flugakademíu Keilis. „Samningur Keilis og Diamond Aircraft er stór áfangi enda henta vélarnar mjög vel við íslenskar aðstæður. Það er gaman að taka þátt í þessu verkefni og við erum afar bjartsýn. Flugnám hérlendis þarf á breytingum að halda og þessi samningur er stórt skref í þá átt.“
„Ég hef mikla trú á möguleikum Íslendinga á markaði fyrir alþjóðlegt flugnám“ segir Christian Dries forstjóri Diamond Aircraft. „Landið er vel staðsett milli Evrópu og Ameríku, þar eru fjölbreytileg og krefjandi veðurskilyrði og nægt loftrými til flugkennslu sem mikill skortur er á í Evrópu. Þá er ódýrara að stunda nám hjá Keili en flugskólum á meginlandinu. Við væntum mikils af samstarfinu við Keili“
„Það er engin kreppa á gamla Varnarsvæðinu eða í starfsemi Keilis og uppbyggingunni hér syðra. Allt okkar starf einkennist þvert á móti af bjartsýni, gleði og sköpunarkrafti. Þessi samningur er dæmi um slíkt og einbeitta trú okkar á framtíðina.“ segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis.