Keilir í samstarf við „Harvard háloftanna“
Keilir og Embry-Riddle háskólinn í Bandaríkjunum hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhuga á samstarfi skólanna í flugkennslu, nemendaskiptum og rannsóknum. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að samstarfsaðilar muni vinna sameiginlega að uppbyggingu nýrra námskeiða til að efla alþjóðlegt námsframboð skólanna.
Meðal þess sem unnið verður að eru sameiginleg bókleg námskeið í atvinnuflugmannsnámi, aðkomu Flugakademíu Keilis að bóklegri kennslu hjá Embry-Riddle og umsjón með umbreytingu flugskírteina (FAA-EASA). Auk þess kveður yfirlýsingin á um að nemendur Keilis geti í framtíðinni fengið hluta af námi sínu metið í framhaldsnám í Embry-Riddle og eigi greiðari aðgang að námi við skólann.
Embry-Riddle háskólinn hefur verið kallaður „Harvard háloftanna“ og er einn elsti og virtasti flugskóli í heiminum. Hann er auk þess eini háskólinn í heiminum sem sérhæfir sig í flugnámi. Hátt í tvö þúsund nemendur víðsvegar að úr heiminum sækja árlega flugnám við skólann og hefur hann til umráða um hundrað kennsluflugvélar og yfir 40 flugherma. Fjöldi íslenskra flugmanna hafa stundað nám við skólann, sem hefur aðsetur á Daytona Beach Flórída og í Prescott Arizona.
Á næstu mánuðum munu Flugakademía Keilis og Embry-Riddle vinna sameiginlega að undirbúningi og útfærslu á námskeiðum og er áætlað að fyrstu námskeiðin verði í boði frá og með janúar 2014. Þá er búist við að fyrstu nemendur frá Embry-Riddle muni sækja um breytingu á skírteinum hér á landi á næsta ári. Nánari upplýsingar um námskeiðin verða auglýst þegar nær dregur.
Flugakademía Keilis býður upp á nám í einkaflugi, atvinnuflugi, flugþjónustu og flugumferðarstjórn, auk náms í flugvirkjun (í samstarfi við AST í Skotlandi). Hjá skólanum er lögð áhersla á nýstárlega kennsluhætti og alþjóðlegt kennsluumhverfi, auk þess sem notast er við nútímalegan og hátæknivæddan flugvélaflota.