Keilir heldur alþjóðlega ráðstefnu um öskugos og flug
Keilir heldur alþjóðlega ráðstefnu nú í september þar sem fjallað verður um áhrif öskugoss á flugumferð. Vonast er til að ráðstefnan muni marka stór spor í að þróa þær breytingar á flugumferð í Evrópu sem taldar eru nauðsynlegar.
Þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa í apríl 2010 hafði askan frá gosinu gífurleg áhrif á flugumferð í Evrópu. Áætlað er að flugfélögin hafi tapað 23 milljörðum króna á degi hverjum. Í Evrópu var 16.000 flugferðum aflýst þann 16. apríl og jafnmörgum daginn eftir. Þann 21. apríl hafði 95.000 flugferðum verið aflýst vegna gossins. Lokun flugsvæða skildi um fimm milljónir manna eftir sem strandaglópa. Áhrif gossins voru víðtækari en áhrif sprengjuárásanna þann 11. september 2001.
Á ráðstefnunni verður m.a. reynt að varpa ljósi á það af hverju lofthelgi Evrópu lokaðist, hvaða reglum var fylgt og hvaða lærdóm draga megi af þessum vanda. Einnig verður reynt að svara því hvort hægt sé að draga úr áhrifum öskufall á flugumferð.
Fyrirlesarar koma m.a. frá flugumferðarstjórnum víðsvegar úr Evrópu, Bandaríkjunum, Rússlandi og Kína, flugfélögum, flugvöllum og framleiðendum eins og Airbus,
Boeing og Rolls Royce, jarðvísindastofnunum og fulltrúum frá rannsóknarstofnunum sem sérhæfa sig í flugheiminum. Ásamt hagsmunaaðilum flugiðnaðarins munu vísindamenn frá Háskóla Íslands, NASA og fleiri stofnunum ræða eldgos og möguleika á að greina öskuský og dreifingu þeirra í loftinu.
--
Ljósmynd/elg.