Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keilir harmar skaðlegan fréttaflutning 24 stunda
Sunnudagur 6. apríl 2008 kl. 23:59

Keilir harmar skaðlegan fréttaflutning 24 stunda

 
Keilir starfar að uppbyggingu á fjölskylduvænni háskólabyggð og leggur ásamt samstarfsaðilum sínum áherslu á að skapa íbúum og börnum þeirra gott og öruggt umhverfi. Velferð barna á svæðinu er stór þáttur í þeirri sýn sem Keilir hefur sérstaklega lagt áherslu á. Keilir harmar því skaðlegan fréttaflutning 24 stunda um myglusvepp í nemendaíbúðum sem er að mati Keilis órökstuddur og einhliða, auk þess sem hann virðist byggjast á sögusögnum en ekki staðreyndum. Þetta segir í tilkynningu frá Keili.


Keilir hefur gert athugasemdir við frétt 24 stunda. Þar segir m.a.: Ekki var haft samband við Keili við vinnslu fréttarinnar. Skemmdir vegna raka eða myglu hafa komið upp vegna galla í einangrun í u.þ.b. 30 íbúðum af þeim tæplega 500 sem Keilir hefur nú til útleigu. Þegar kvörtun kemur fram er viðkomandi íbúð skoðuð og síðan gert við skemmdina í samráði við íbúa. Viðgerð tekur að jafnaði 5 daga. Sýni voru tekin úr nokkrum íbúðum og greind. Þar var myglusveppur ekki til staðar í því magni að hann skapi íbúum hættu. Orðið hefur verið við óskum þeirra sem hafa beðið um að flytja úr íbúð sinni yfir í aðra. Allt verkferli hefur verið unnið í samvinnu við fagaðila, tvær verkfræðistofur, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, Náttúrufræðistofnun Íslands og Hús og heilsu. Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, líffræðingur hjá Húsi og heilsu, sem er sérfræðingur á þessu sviði, telur verkferla og viðbrögð Keilis í málinu hafa verið til fyrirmyndar. Samkvæmt upplýsingum frá leikskólanum Völlum, hefur ekki borið á óeðlilegum veikindum á meðal barna sem þar dvelja, en þau eru á annað hundrað.


Í því tilfelli sem 24 Stundir fjalla um (sl. föstudag) þá fullyrðir viðkomandi leigjandi að rangt sé eftir sér haft varðandi skoðanir hennar um veikindi barna á svæðinu. Keilir hefur heldur engar upplýsingar um að barn af svæðinu hafi verið lagt inn á sjúkrahús með “sár á lunga” eins og fram kom í frétt 24 Stunda. Að auki liggur fyrir það mat lungnalækna að engin tengsl væru möguleg milli slíkra alvarlegra veikinda og myglusveppa vegna raka. Í því tilfelli sem fjallað er um í 24 stundum er hins vegar rétt að kvörtun barst fyrir þremur vikum sem ekki var brugðist við eftir ofangreindu verkferli vegna mistaka. Viðkomandi leigjandi hefur þegar verið beðin velvirðingar á því. Þegar hundruðir íbúða eru gerðar upp og teknar í notkun eftir að hafa staðið auðar er ekki óeðlilegt að gallar og skemmdir komi fram í einstaka íbúðum. Keilir leggur áherslu á að hér er um að ræða lítið hlutfall þeirra nemendaíbúða sem eru á svæðinu og að almennt eru íbúar þess mjög ánægðir með húsakynni sín og allan aðbúnað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024