Keilir: Flugfreyjur og þjónar í útrás
Mitt í allri kreppunni og svartnættinu berast fréttir af óvenjulegri útrás Íslendinga. Ekki er um að ræða fjárglæframenn né fiskútflytjendur, heldur er um er að ræða íslenskar flugfreyjur og þjóna.
Í kennsluhúsnæði Keilis situr um helgina hópur reyndra flugfreyja og þjóna til að búa sig undir störf í Nigeríu. Þar mun hópurinn þjóna fram yfir áramót í pílagrímaflugi fyrir erlent flugfélag. Málið mun þannig til komið að leitað var til reyndrar flugfreyju, Sigurlaugar Sverrisdóttur, um að útvega þennan hóp með tiltölulega skömmum fyrirvara.
Á örfáum dögum safnaði Sigurlaug hópnum saman, þau hittust á undirbúningsnámsskeiði í Eldey (húsnæði Keilis) og eru nú á leið á vit mikilla ævintýra. Greiðsla er í erlendri mynt og má segja að þarna sé sannarlega gleðileg frétt í þeim hremmingum er nú annars steypast yfir okkur.
Mynd: Hópurinn á námskeiði í Eldey nú í kvöld. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson