KEFLVÍKINGI FALIÐ AÐ KRYFJA SJÁVARÚTVEGINN
Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, hefur falið Keflvíkingnum Dr. Birgi Þór Runólfssyni, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, að kanna áhrif Kvótaþings og Verðlagsstofu á íslenskan sjávarútveg. Tilboðsmarkaður með aflamark hefur verið starfræktur frá 1. september 1998 en honum var komið á fót með lögum nr. 11/1998 um Kvótaþing. Einnig hóf Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjó- og útvegsmanna störf, skv. lögum nr. 12/1998, sem ætlað er að stuðla að réttu og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna. Að uppskrift ráðherra er Dr. Birgi sérstaklega ætlað að kanna sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðarinnar. Gert er ráð fyrir að niðurstöður könnunarinnar verði birtar í lok þessa árs.