Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Keflavíkurverktakar missa stórt verk til ÍAV
Þriðjudagur 24. september 2002 kl. 10:19

Keflavíkurverktakar missa stórt verk til ÍAV

Keflavíkurverktakar hf. hafa misst svokallaðan Húsunar-samning yfir til Íslenskra aðalverktaka. Þrjátíu og fjórir menn hafa unnið við Húsun hjá Keflavíkurverktökum. Þar er haft yfirumsjón með viðhaldi íbúða Varnarliðsmanna, þær yfirfarnar við íbúaskipti og jafnframt rekin sólarhrings neyðarþjónusta varðandi allt viðhald og bilanir. Um er að ræða fimm ára samning með uppsagnarákvæði. Róbert Trausti Árnason, forstjóri Keflavíkurverktaka hf., sagði í samtali við Víkurfréttir í morgun að fyrirtækið leitaðist við að tryggja þeim mönnum sem misstu vinnuna, vegna þessa verkefnis, önnur störf. Samkeppni um verktöku á Keflavíkurflugvelli væri komin af fullum krafti og þeir sem bjóði í verk verði að gera ráð fyrir því að fá ekki verkið.Keflavíkurverktakar sögðu í sumar upp 72 starfsmönnum og sagði Róbert Trausti að 34 starfsmenn Húsunar væru þar á meðal. Róbert Trausti Árnason, forstjóri Keflavíkurverktaka, sagði á fundi með starfsmönnum fyrirtækisins í sumar, að það væri margt sem spilaði inn í uppsagnirnar, en helsta ástæðan væri sú að Keflavíkurverktakar hf. væru einfaldlega ekki samkeppnishæfir á Keflavíkurflugvelli þar sem lítið væri um verkefni og þeir hefðu ekki fengið úthlutað því sem þeim hefði verið lofað. Róbert benti hins vegar á að ýmsir möguleikar væru fyrir hendi á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu.

Ekki hafa fengist upplýsingar um það hjá Íslenskum aðalverktökum hvort þeir komi til með að ráða eitthvað af þeim starfsmönnum sem unnu við Húsun hjá Keflavíkurverktökum hf. Víkurfréttir hafa hins vegar heimildir fyrir því að fjöldi starfsmanna Keflavíkurverktaka hf. hafi sótt um störf hjá ÍAV.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024