Keflavíkurlögreglan kemur síbrotamönnum í steininn til 20. október
Lögreglan í Keflavík fékk nú undir kvöld tvo síbrotamenn, sem verið hafa áberandi í fréttum síðustu daga, dæmda hjá Héraðsdómi Reykjaness í síbrotagæslu á bakvið lás og slá til 20. október nk.
Mennirnir tveir, fæddir 1988 og 1985 hafa á samviskunni talsverðan fjölda brota hér á Suðurnesjum, auk þeirra afbrota víða um land sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum síðustu daga. Þar eru meðal annars bílþjófnaðir og innbrot. Í Árnesi höfðu ungu mennirnir á brott með sér þýfi fyrir um milljón krónur, auk þess að valda miklu tjóni. Fjölmörg innbrot í sumarhús eru rakinn til sömu aðila, bílþjófnaðir í Reykjavík og á Húsavík, svo eitthvað sé nefnt.
Hjá rannsóknardeild Lögreglunnar í Keflavík fengust þær upplýsingar í kvöld að mennirnir tveir verði vistaðir á lögreglustöðinni í Keflavík þar til á morgun en þá mun Fangelsismálastofnun taka afstöðu til þess hvort mennirnir verði látnir dúsa á Litla Hrauni eða í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík.
Keflavíkurlögreglan fékk mennina dæmda í síbrotagæsluna m.a. vegna þeirra fjölda mála sem hún hafði á ungu mennina. Þá hefur hegðun þeirra síðustu daga sýnt brotavilja, þar sem þeir voru nýlega lausir úr fangelsi á Selfossi þegar þeir brutust inn í Reykjavík og stálu lyklum af jeppabifreið og stálu síðan jeppanum. Málin sem lögreglan í Keflavík hefur á mennina tengjast flest auðgunarbrotum.
Myndir: Frá lögreglustöðinni í Keflavík.