Keflavíkurflugvöllur meðal 100 stærstu í Evrópu
Keflavíkurflugvöllur er meðal 100 stærstu flugvalla Evrópu og lista þeirra tíu stærstu á Norðurlöndum. Þetta kemur í ljos þegar fjöldi ferðamanna um flugvelli í Evrópu er borin saman. Turisti.is greinir frá þessu.
Mun fleiri erlendir ferðamenn lögðu leið sína hingað í fyrra en árin á undan og farþegum sem aðeins millilenda í Keflavík fer einnig fjölgandi. Ferðagleði Íslendinga er líka meiri nú en árin eftir hrun. Aukningin í farþegum talið var því hlutfallslega meiri hér en á stærstu flugvöllum frændþjóðanna í fyrra.
Upp um nokkur sæti
Þegar litið er til allrar Evrópu þá er Keflavíkurflugvöllur í nítugasta og sjöunda sæti yfir þá stærstu í álfunni samkvæmt upplýsingum frá Aci-Europe, samtökum evrópskra flugvalla. Litlu munar að sá íslenski komist einu sæti ofar því farþegar í Bourgas í Búlgaríu voru aðeins rúmlega þrjú hunduð fleiri allt síðasta ár.
Í sætunum fyrir neðan Keflavík, á lista 100 stærstu, eru vellirnir í Bromma í Stokkhólmi, Leipzig í Þýskalandi og Paphos á Kýpur. Í fyrra var Keflavík í sæti númer 106.
Heathrow í London er hins vegar langstærstur í Evrópu með 70 milljónir farþegar og í öðru sæti er Charles de Gaulle í París með nærri 62 milljónir. Frankfurt í Þýskalandi er í þriðja sæti.
Níundi á Norðurlöndum
Það fóru rúmlega tuttugu og þrjár milljónir manna um Kaupmannahafnarflugvöll á síðasta ári sem er meira en aðrir norrænir flugvellir geta státað af. Þar á eftir koma Gardermoen í Osló, Arlanda í Stokkhólmi og Vantaa í Helsinki. Síðan eru það norsku vellirnir í Bergen, Stavanger og Þrándheimi og sá áttundi stærsti er í Gautaborg í Svíþjóð. Keflavík og Malmö eru í síðustu sætunum. Allir þessir vellir, nema sá íslenski, sinna einnig innanlandsflugi.
www.turisti.is