Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Keflavíkurflugvöllur hlýtur viðurkenningar fyrir þjónustu og hreinlæti í heimsfaraldri
Fimmtudagur 10. mars 2022 kl. 10:14

Keflavíkurflugvöllur hlýtur viðurkenningar fyrir þjónustu og hreinlæti í heimsfaraldri

Keflavíkurflugvöllur hefur, ásamt fimm öðrum flugvöllum, verið valinn í hóp með bestu flugvöllum í Evrópu í sínum stærðarflokki hvað varðar þjónustugæði. Þá er Keflavíkurflugvöllur einnig meðal tuttugu flugvalla í Evrópu sem hljóta sérstaka viðurkenningu Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) fyrir hreinlæti á síðasta ári.

Þjónustukönnun ACI, Airport Service Quality Programme (ASQ), er meðal viðurkenndustu mælinga sem gerðar eru á þjónustugæðum flugvalla. Farþegar á flugvöllum um allan heim eru spurðir staðlaðra spurninga um þjónustu og upplifun. Samanburðurinn er því samræmdur og umfangsmikill, bæði milli flugvalla og ára.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavíkurflugvöllur hlaut nú annað árið í röð bæði viðurkenningu fyrir þjónustu í sínum stærðarflokki í Evrópu og fyrir hreinlætis- og öryggisaðgerðir í heimsfaraldri. Síðarnefnda viðurkenningin var fyrst veitt í fyrra en þá var upplifun farþega af öryggi og hreinlæti á flugvöllum mæld og mat lagt á aðgerðir sem gripið var til á hverjum flugvelli vegna heimsfaraldursins. Þótti Keflavíkurflugvöllur hafa haldið vel á spöðunum í þeim efnum í fyrra. Þessu til viðbótar þá er þetta fjórða árið í röð sem Keflavíkurflugvöllur fær viðurkenninguna fyrir bestu þjónustuna í sínum stærðarflokki í Evrópu.

„Það er mjög góð samvinna starfsfólks Isavia og allra rekstraraðila á Keflavíkurflugvelli sem hefur skilað þessum góða árangri. Við höfum náð að halda háum þjónustugæðum í gegnum heimsfaraldurinn,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Isavia. „Viðskiptavinum okkar líður vel þegar þeir fara um völlinn okkar og vil ég nota tækifærið og óska öllu starfsfólki Keflavíkurflugvallar til hamingju með þennan góða árangur.“