Keflavíkurflugvöllur ekki vinnubúðir
Töluverð ásókn hefur verið í að fá húsnæði á gamla varnarsvæðinu til að hýsa erlenda verkamenn. Þetta staðfestir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar í samtali við Víkurfréttir.
„Við höfum viljað sjá til með þetta og sjá hvernig önnur verkefni fara af stað áður en við bindum húsnæðið í þessum tilgangi,“ sagði Kjartan en bætti því við að slíkt væri mögulegt en þá bara sem tímabundin ráðstöfun.
„Ef þetta yrði gert væri það algerlega á þeim forsendum að þetta sé tímabundin ráðstöfun. Það er ekki okkar markmið að breyta svæðinu í vinnubúðir án þess að reyna annað fyrst. Við sjáum fyrir okkur að það væri mögulegt að nýta húsnæðið í þessum tilgangi tímabundið en það myndi svo fjara út um leið og væntanlegt háskólasamfélag stækkaði. En þessu yrði að sjálfsögðu vel stýrt ef af því verður.“
Sala eignanna á svæðinu er að þokast í rétta átt og er tíðinda af því að vænta á næstu dögum, að sögn Kjartans.
VF-Mynd/elg