Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 12. janúar 2000 kl. 15:42

KAVÍAR OG LIFRARPATÉ Á ERLENDA MARKAÐI

Fyrirtækið Fiskanes í Grindavík er rúmlega 30 ára gamalt fyrirtæki en það rekur saltfiskverkun, frystingu, humarvinnsla og lagmetisiðju. Fiskanes er líka með bátaútgerð og fyrirtækið gerir út 8 skip. Á milli 150-200 starfsmenn vinna hjá fyritækinu að jafnaði. Einar Lárusson er yfirmaður lagmetisiðjunnar en þar er unnið við að sjóða niður rækjur, lifur og lifrarpaté og framleiddur kavíar af bestu gerð. Framleiðslan fer mest öll á erlenda markaði, til Evrópulanda, Asíu og á Bandaríkjamarkað. Nær alltaf með fulla vinnslu Við sjóðum niður rækju á sumrin þ.e.a.s. þau sumur sem má veiða hana við Eldey. Á tímabilinu janúar til maí sjóðum við niður lifur og lifrarpaté en þess á milli erum við í kavíarvinnslu. „Við flytjum afurðirnar mest til Frakklands og Þýskalands en Asía, Bandaríkin og Malasía eru að koma sterk inn núna“. Einar sagði að framleiðslan væri nær stöðug allt árið um kring en verðsveiflur væru á framleiðsluvörum, sérstaklega kavíarnum. Framleiðslan hefur verið mikil í ár, en við framleiddum nokkur hundruð þúsund dósir af paté og lifur og á aðra miljón kavíarglasa. Stöðugt í vöruþróun Einar sagði að fyrirtækið væri stöðugt í vöruþróun, en það framleiðir vörur fyrir 30 fyrirtæki undir álíka mörgum vörumerkjum.Kúnnarnir eru mjög ólíkir og Einar sagði að smekkur manna væri mjög misjafn eftir löndum. Honum finnst sem Frakkar og Íslendingar hafi svipaðan smekk, að Þjóðverjar séu meira fyrir súrt en Asíubúar vilja fá sjávarbragðið og sem minnst krydd. „Við erum verktakar og annað hvort gerum við tilboð í að framleiða vöru eða að fólk leitar til okkar. Vöruþróunin getur þó tekið töluverðan tíma, frá 6 vikum og allt uppí 6 mánuði. Fyrst þarf vörutegundin að fara í smakk út um allan heim, en starfsmenn lagmetisiðjunnar smakka fyrstir allra. Svo látum við hanna umbúðir og loks þarf varan að uppfylla ýmsar reglugerðir, þannig að vöruþróunarferlið tekur allt sinn tíma“, segir Einar. Á bragðlaukunum til Kína Einar vinnur ekki við þróun sjávarafurða eingöngu vegna sinna einstöku bragðlauka. Hann segist þó hafa þróað ákveðna smökkunartækni í gegnum árin en hann er einnig menntaður niðursuðufræðingur og hefur lært matvælafræði og fiskitækni. Bragðlaukarnir fleyttu Einari loks yfir hálfan hnöttin því Kínverjar fengu hann til að vera hjá sér í Kína og vinna við vöruþróun á framleiðsluvörum fyrir Evrópumarkað. „Mér leist mjög vel á mig í Kína enda eru Kínverjar mjög þægilegir í umgengni en ég hafði því miður allt of lítinn tíma til að skoða mig um“, segir Einar. Hann sagði að það hefði komið honum á óvart hversu hreinlætið í verksmiðjunni í Kína var mikið en fólk þurfti að ganga í gegnum stóra sundlaug fulla af klórvatni áður en það kom inní vinnslusalinn. „Ég er ennþá í samstarfi við Kínverjana og þeir senda mér reglulega sýni sem ég smakka og gef þeim ráðleggingar. Sýrðar marglyttur, sæbjúgu og fuglaheilar á boðstólnum En hvernig þótti Einari maturinn í alþýðulýðveldinu? „Maturinn var voðalega góður. Það voru aldrei færri en 15 réttir á borðum og við fengum aldrei hrísgrjón. Ég pantaði mér pekingönd í Peking en þjónninn færði mér bara skorpuna. Þegar ég spurði hvar kjötið væri þá yppti hann öxlum sagði mér að það væri bara fyrir ferðamennina. Skorpan er það alfínasta sem þeir bera fram“, segir Einar og tekur fram að skorpan hafi bragðast mjög vel. Hann segist líka hafa borðað dúfur, sem honum vera hreinasta lostæti. Þurrkaðar og sýrðar marglyttur og sæbjúgu var líka á boðstólnum í Kína. „Marglytturnar voru ágætar og sæbjúgun brögðuðust eins og ávaxtahlaup með lakkrísbragði. Ég fékk líka oft fuglakjöt en Kínverjar steikja fuglana alltaf með hausnum. Ætlast var til að ég borðaði heilann úr fuglunum. Ef ég gerði það ekki strax þá biðu allir þangað til ég var búin að innbyrða heilann.“ Þessar matarlýsingar Einars hljóma nú ekki of vel í eyrum Íslendingsins, þá biður maður nú frekar um bjúgur með uppstúf. Einar fullyrðir hins vegar að maturinn hafi verið mjög góður og maður verður að trúa því. Texti: Silja Dögg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024