Kaupmenn ósáttir við Fríhöfnina
Á vefsíðu Samtaka verslunar og þjónustu er greint frá því í dag að mörgum þyki það vera æði ójafn leikur að smásöluverslun, sem ríkið rekur, eigi í samkeppni við einkareknar verslanir því Fríhöfnin selji vörur án virðisaukaskatts, vörugjalda og annarra gjalda.
Meðal annars vöktu auglýsingar Fríhafnarinnar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar nokkra athygli fyrir jólin. Um var að ræða iPod tónlistarspilarann sem hefur notið mikilla vinsælda hérlendis og virðist ekkert lát vera þar á.
Verslunareigendur í Reykjavík hafa tjáð SVÞ að Fríhafnarverslunin hafi útsendara á sínum snærum til að kanna verðlag í einkareknum verslunum til að bera saman verðlag svo Fríhöfnin geti tryggt það að hún bjóði upp á lægra verð.
Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf., sagði það orðum aukið að Fríhöfnin hefði útsendara á sínum snærum til þess að kanna verðlag í einkareknum verslunum. „Við reynum auðvitað að tryggja sem lægst verð í Fríhöfninni samanborið við aðrar fríhafnir erlendis. Við skoðum sérstaklega verð hjá öðrum fríhöfnum og reynum eftir fremsta megni að tryggja að verð á okkar vörum sé allaveganna virðisaukanum lægri en í verslunum á Íslandi. En hinsvegar könnum við verðlag bæði erlendis og innanlands,“ sagði Höskuldur í samtali við Víkurfréttir.
VF-mynd/ úr safni