Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 14. janúar 1999 kl. 18:29

KAUPFÉLAGIÐ AÐ HLUTAFÉLAGI

Veruleg tímamót urðu hjá Kaupfélagi Suðurnesja nú um áramótin þegar verslanir og kjötvinnsla félagsins runnu inn í sérstakt hlutafélag, Samkaup hf. „Þetta gerir okkur tilbúin inn í nýja öld og er beint framhald af ýmsum breytingum hjá félaginu undanfarin ár“, sagði Guðjón Stefánsson, kaupfélagsstjóri í samtali við Víkurfréttir á mánudaginn. Kaupfélagið verður fyrst um sinn eini eigandi þessa hlutafélags og mun leggja rekstur, innréttingar og tæki inn í það sem hlutafé. Síðar á árinu er svo fyrirhugað að bjóða út aukið hlutafé. Félagsmönnum Kaupfélags Suðurnesja verður þá boðinn forkaupsréttur að nýjum hlutum. Síðan er svo meiningin að félagi fari á opinn hlutabréfamarkað. Kaupfélagið mun áfram eiga fasteignirnar og annast rekstur þeirra. Það mun einnig áfram hafa eignarhald á hlutabréfaeign félagsins. Verslanir og kjötvinnsla munu áfram halda nöfnum sínum eins og „Kasko, Sparkaup, Kjötsel og Samkaup“. Að sögn Guðjóns hyggst stjórn félagins með þessum breytingum gera félagið betur í stakk búið til þess að gegna hlutverki sínu á sviði verslunar og þjónustu og skapa jafnframt möguleika til að takast á við ný verkefni. „Á síðustu árum höfum við verið að breyta rekstri okkar þannig að nú einbeitum við okkur eingöngu að verslun og kjötvinnslu“. Aðspurður um það hvort framundan væri frekari útvíkkun á starfseminni í ljósi góðra landvinninga í Hafnarfirði og á Ísafirði sagði Guðjón að ekkert væri fyrirliggjandi en fylgst væri vel með öllum hreyfingum. „Reykjavíkursvæðið er náttúrlega stærsta svæðið en við höfum enn ekki séð ástæðu til þess að fara þangað vegna þess að okkar helstu markaðssvæði hafa haldist í nokkru jafnvægi miðað við fjölda verslana. Breytist það hins vegar eitthvað er aldrei að vita hvað gerist“. Kaupfélag Suðurnesja er fyrst kaupfélaga á landinu til að fara hlutafélagsleiðina.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024