Kaupa íþróttahús af Eignarhaldsfélaginu Fasteign
– skuldbinding vegna hússins samtals 476,5 millj. kr.
Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hefur heimilað bæjarstjóra í samræmi við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2014, að óska eftir við Eignarhaldsfélagið Fasteign að nýta kauprétt sveitarfélagsins á íþróttahúsi sveitarfélagsins. Ætluð skuldbinding Sveitarfélagsins Voga vegna hússins var í árslok 2013 samtals 476,5 millj. kr.
Í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun er bæjarstjóra einnig heimilt að óska eftir láni frá Lánasjóði sveitarfélaga til 15 ára með fljótandi vöxtum, fjármagnað af eigið fé Lánasjóðsins til fjármögnunar á kaupunum allt að 400 millj. kr. og eftirstöðvar fjármagnaðar með handbæru fé sveitarfélagsins.
Framangreindar fjárhagsráðstafanir hafa ekki áhrif á fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins og auka ekki skuldbindingar þess frá núverandi stöðu, segir í gögnum bæjarráðs.