Kaupa Garðvang á 97 milljónir króna
Nesfiskur ehf. kaupir Garðvang í Garði á 97 milljónir króna. Að Garðvangi var rekið hjúkrunarheimili þar til í mars 2014 að heimilisfólkið flutti á Hrafnistuheimilið við Nesvelli í Reykjanesbæ. Síðan þá hefur Garðvangur staðið tómur.
Garðvangi verður breytt í íbúðarhúsnæði fyrir starfsfólk og því má segja að húsnæði Garðvangs, sem áður hét Grímshóll, fari aftur til upprunans því húsið var byggt sem verbúð í Garði á sínum tíma.
Nú er unnið að því að leggja niður Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, DS, og er salan á Garðvangi liður í því ferli. DS eru ekki í neinum rekstri en eiga húsnæði Hlévangs í Keflavík og áttu einnig Garðvang í Garði, sem núna hefur verið seldur.