Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Katla Rún heiðursnemandi Heiðarskóla í Reykjanesbæ
Katla Rún Garðarsdóttir var valin heiðursnemandi Heiðarskóla í Reykjanesbæ. (Myndir frá Heiðarskóla.)
Þriðjudagur 9. júní 2015 kl. 09:33

Katla Rún heiðursnemandi Heiðarskóla í Reykjanesbæ

Skólaslit voru í Heiðarskóla í Reykjanesbæ sl. föstudag 5. júní. Sóley Halla Þórhallsdóttir, skólaskólastjóri ávarpaði gesti á öllum skólaslitum og þakkaði fyrir ánægjulegan vetur. Veittar voru viðurkenningar í öllum bekkjum en Katla Rún Garðarsdóttir var valinn heiðursnemandi Heiðarskóla að þessu sinni.

Skólaslitin voru að venju fjögur. Steinunn Snorradóttir deildarstjóri yngra stigs hafði umsjón með skólaslitum 1.-3. bekkja, Haraldur Axel Einarsson, aðstoðarskólastjóri stýrði skólaslitum 4.-6. bekkja og Bryndís Jóna Magnúsdóttir deildarstjóri eldra stigs skólaslitum 7.-9. bekkja. Eftirtaldir nemendur glöddu gesti með vönduðum tónlistarflutningi á þessum þremur skólaslitum: Andrés Kristinn, Ásdís Bára, Rakel Rán, Bergþóra Káradóttir, Guðný Ösp, Stefán Jón, Arnar Geir og Bergur Daði. Í 1.-6. bekk var hverjum bekk afhent viðurkenningarskjal með hrósi og hvatningarorðum starfsfólks. Í 7.-9. bekk voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í hinum ýmsu námsgreinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sóley Halla fór yfir helstu viðburði skólaársins og fjallaði m.a. um foreldrasamstarf og ánægjulegar niðurstöður úr Skólapúlsinum um vellíðan nemenda og samband þeirra við starfsfólk skólans. Lovísa Lóa Annelsdóttir spilaði á þverflautu og Nína Björk Gunnarsdóttir söng lagið Halleluja við undirspil Írisar Óskar Halldórsdóttur. Þær Eygló Pétursdóttir og Þóra Guðrún Einarsdóttir, umsjónarkennarar 10. bekkjanna, töluðu til nemenda sinna og annarra gesta og Stella Björk Einarsdóttir, formaður nemendaráðs, flutti erindi fyrir hönd nemenda.

Ýmsar viðurkenningar voru veittar en meðal þeirra var viðurkenningin Heiðursnemandi Heiðarskóla sem Gunnar Jónsson, fyrrverandi skólastjóri, kostar og afhendir. Heiðursnemandinn í ár er Katla Rún Garðarsdóttir en að mati kennara og starfsmanna hefur hún verið sérstaklega jákvæð, kurteis og heiðarleg í samskiptum við nemendur og starfsfólk skólans, verið til fyrirmyndar í framkomu sinni og ávallt gert sitt besta í sínum verkefnum. Þau Fanney Petra Ómarsdóttir, Jóhann Birnir Guðmundsson og Brynja Ástráðsdóttir munu láta af störfum og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf og þeim afhentur blómvöndur. Þeim Haraldi Axel Einarssyni, Evu Lilju Ólafsdóttur og Mörthu Ólínu Jensdóttur voru afhentar gjafir fyrir að hafa náð sínu 10. starfsári í Heiðarskóla. Eftir að hverjum nemanda hafði verið veitt vitnisburðarskjal og rós sagði Sóley Halla skólárinu 2014-2015 slitið. Að skólaslitum loknum gæddu viðstaddir sér á gómsætum veitingum sem þær Þórunn Sigurðardóttir og Dagfríður Arnardóttir höfðu galdrað fram af sinni alkunnu snilld. Stór hluti útskriftarnema ílengdist í skólanum þennan ágæta dag og vildu helst fá að vera fram á kvöld. Áður en þeir kvöddu hvern annan og starfsfólk tóku þeir saman lagið Í síðasta skiptið og týndust svo hver á fætur öðrum út í sumarblíðuna.

Útskriftarhópur 10. bekkjar.

7.-9. bekkur.

4.-6. bekkur.

1-3. bekkur.

Eygló kennari í 10. bekk réð illa við tilfinningarnar og var strax byrjuð að sakna nemendanna.