Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Karpað um bæjarstjóralaun
Miðvikudagur 4. mars 2009 kl. 08:20

Karpað um bæjarstjóralaun



Laun bæjarstjóra urðu tilefni orðasennu milli minni-  og meirihluta í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga á síðasta bæjarstjórnarfundi. Minnihlutinn hafði lagt fram tillögu að breytingu á ráðningasamningi bæjarstjóra en í henni fólst að hann tæki á sig launalækkun. Meirihlutinn hafði aðra tillögu fram að færa. „Skattgreiðendur í sveitarfélaginu mega vera þakklátir því að E-listinn kaus að fylgja ekki stefnu fyrri meirihluta í launamálum bæjarstjóra,“ segir Bergur Álfþórsson, bæjarfulltrúi E-listans, í bókun sem hann lagði fram á fundinum.

„Í tillögu að breytingu á ráðningarsamningi bæjarstjóra er ekki gert ráð fyrir launalækkun bæjarstjóra þrátt fyrir tillögu minnihlutans um það á síðasta bæjarstjórnarfundi. ´
Í fyrirhugaðri breytingu á kjörum bæjarstjóra er aflagður fastur bílastyrkur en í staðinn verður akstur greiddur samkvæmt akstursdagbók. Slík breyting á kjörum bæjarstjóra er ekki að þýða launalækkun.
Bílastyrkur er greiddur vegna útlagðs kostnaðar viðkomandi starfsmanns og er því ekki laun. Því viljum við leggja til að bæjarstjóri taki á sig sömu launalækkun og samþykkt var á kjörum bæjarfulltrúa,“ segir í bókun minnihlutans.

„Í ljósi ummæla fulltrúa minnihlutans um launakjör bæjarstjóra er rétt að benda á að skattgreiðendur í sveitarfélaginu mega vera þakklátir því að E-listinn kaus að fylgja ekki stefnu fyrri meirihluta í launamálum bæjarstjóra.
Minnihlutinn gerir mikið úr launakjörum núverandi bæjarstjóra svo ég tel rétt að bera saman kjör hans og fyrri bæjarstjóra sem samdi um kjör sín við þáverandi meirihluta, svo augljósum misskilningi sé í eitt skipti fyrir öll eytt.
Við gerð ráðningarsamnings við fyrri bæjarstjóra í september 2003 voru laun hans kr. 607.000 á mánuði í 13 mánuði á ári tryggð með launavísitölu. Væru launin uppreiknuð til dagsins í dag m.v. launavísitölu væru þau rúm 992 þúsund á mánuði, samanborið við 726 þúsunda laun núverandi bæjarstjóra.
Til viðbótar má benda á að fyrri bæjarstjóri fékk greidda 2.400 á ári kílómetrum meiri akstur en núverandi bæjarstjóri fyrir breytingu á ráðningarsamningi hans,“ segir í bókun sem Bergur Álfþórsson, bæjarfulltrúi E-lista, lagði fram.

Tillaga E-listans um ráðningasamninginn var samþykkt með fjórum atkvæðum meirihlutans en  þrír fulltrúa H-listans í minnhlutanum sátu hjá.

„Ég lýsi undrun minni á því að minnihlutinn sem berst fyrir því að rýra kjör bæjarstjóra skuli ekki geta greitt atkvæði með því að kjör bæjarstjórans séu rýrð, “ segir bókun sem Bergur lagði fram í kjölfar atkvæðagreiðslunnar.

Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi H-listans lýsti undrun sinni á þessari umræðu.
„Við erum að leggja til að bæjarstjóri taki á sig minni kjaraskerðingu en meirihlutinn lagði til fyrir bæjarfulltrúa. Forseti bæjarstjórnar talar um að hann þekki þessi vinnubrögð minnihlutans og bæjarfulltrúi talar um smásmuguleg vinnubrögð og popularisma hjá minnihlutanum,“ segir í bókun Ingu Sigrúnar.

Þess má geta að Sigurður Kristinsson, bæjarfulltrúi H-listans hefur framvegis afþakkað laun fyrir fundarsetu í bæjarstjórn og lagði hann fram sérstaka bókun því til staðfestingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024