Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Karnival á opnum degi á Ásbrú á morgun
  • Karnival á opnum degi á Ásbrú á morgun
Miðvikudagur 13. maí 2015 kl. 14:07

Karnival á opnum degi á Ásbrú á morgun

„Svakalegur kraftur í öllu hér“ segir verkefnastjóri.

Flestir kannast við gamla karnivalið, fjölskylduskemmtun Varnarliðsins, sem var á Keflavíkurflugvelli þegar herinn var þar. Ætlunin er að endurvekja þessa stemningu og bjóða heim eins og þá var gert, með aðeins meiri vísindalegri áherslu í ár. 
 
„Á síðustu árum hefur þetta meira snúist um að kynna starfsemina sem er á svæðinu og að vera með fjölskylduskemmtun í gangi líka. Það sem er frábrugðið í ár frá því sem áður var er að settur hefur verið meiri kraftur í að fá fyrirtæki til að vera með kynningu og það verður eins mikið eins og hægt er inni í Atlantic Studios,“ segir Unnsteinn Jóhannsson, verkefnastjóri karnivalsins. Áherslan hafi þróast í þá átt að tengast meira því sem gerist á svæðinu.  „Núna verður vísindaþema. Fjöldinn allur af frumkvöðlafyrirtækjum er á svæðinu og þau eru flest, ef ekki öll, svo vísindatengd. Þess vegna erum við að breyta þessu í nokkurs konar vísi að vísindasafni í þrjá klukkutíma. Fólk verður svo bara að gefa okkur séns því við munum hafa þetta enn flottara á næsta ári.“ 
 
 
Ævar vísindamaður aðalnúmerið
Ævar vísindamaður verður aðalnúmerið á karnivalinu og hann verður á svæðinu allan tímann. „Hann verður með aðstoðarmenn úr Keili. Svo fengum við leikmyndahönnuðinn Lindu Mjöll í lið með okkur og nú er búið að byggja allt upp frá grunni. Fólk verður ekki fyrir vonbrigðum,“ segir Unnsteinn. Fengnir hafi verið ellefu sjálfboðaliðar frá samtökunum Seeds til að vinna með þeim, auk smiða og annnarra. „Gríðarlegur metnaður.“ 
 
Valdís, Gói og Jóhanna Ruth
Eins og áður segir verður fjöldi fyrirtækja og frjálsra samtaka með kynningu á svæðinu. Sem dæmi má taka ísbúðina Valdísi, en hún mun frumsýna nýjan sölubás. „Keilir tekur sér gott pláss í ár. Flugherinn bandaríski kemur og mun sýna eitthvað af græjunum sínum. Gói, Guðjón Davíð Karlsson, kemur líka og sigurvegari Samfés, Jóhanna Ruth Luna Jose, mun taka lagið. Við erum mjög ánægð að fá hana því hún á pottþétt eftir að ná langt í söngnum,“ segir Unnsteinn.
 
Ótrúleg uppbygging 
Unnsteinn kemur úr Reykjavík og er örlítið tengdur Suðurnesjum í gegnum ættingja, þ.á.m. nafna sinn og afa sem var lögreglumaður í Keflavík. „Ég finn sem utanbæjarmaður að það er ekki bara kraftur í því sem býr í jarðveginum hérna. Það er svakalegur kraftur í fólkinu og fyrirtækjunum sem eru hérna á Ásbrúarsvæðinu. Það upplifi ég svo sterkt þegar ég vinn að þessari hátíð. Það eru ótrúlegir hlutir að gerast hérna og mér finnst þetta svo magnað á hverju ári. Þetta svæði nýtur ekki þess sannmælis sem það á skilið. Uppbyggingin er ótrúleg og ég er ánægður að fá að vera með.“ 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024